Ég sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og óska eftir þínum stuðningi.
Frá árinu 2010 hef ég kynnst stjórnsýslu Vestmannaeyja vel. Ég hef setið í meiri- og minnihluta, starfað sem formaður ráðs, bæjarfulltrúi, forseti bæjarstjórnar og bæjarráðsmaður. Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar tók ég við oddvitahlutverki Sjálfstæðisflokksins.
Ég hef leitt ýmis framfaramál fyrir sveitarfélagið, sem formaður fræðslu- og menningarráðs t.d. við útboð leikskólans Sóla þegar Hjallastefnan tók við, innleiðingu Íþróttaakademíunnar ásamt því að vera formaður 40 ára goslokaafmælis. Sem bæjarfulltrúi tók ég virkan þátt við yfirtöku á rekstri Herjólfs, við að bæta þjónustu við barnafjölskyldur, baráttunni fyrir sýslumannsembættinu og leiddi verkefnið Veldu Vestmannaeyjar sem snýr að markaðssetningu Vestmannaeyja sem eftirsóknarverðan búsetukost, bæta aðstöðu fyrir fjarvinnu, tengja háskólanema atvinnulífinu og auka jákvæða umfjöllun um sveitarfélagið.
Í dag sit ég m.a. í bæjarstjórn, bæjarráði, byggingarnefnd Hamarskóla og stjórn Eyglóar, félags Vestmannaeyjabæjar um ljósleiðaravæðingu. Þessa og aðra reynslu ásamt sterkum tengingum við þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúa víðs vegar um landið tel ég mikilvægt veganesti fyrir áframhaldandi störf í þágu sveitarfélagsins.
Mín framtíðarsýn
Framtíð Vestmannaeyja byggist fyrst og fremst á þremur þáttum, öflugum samgöngum, fjölbreyttu atvinnulífi og góðri þjónustu við íbúa samfélagsins. Þessa þætti vil ég standa vörð um og efla – fyrir þig.
Klára þarf rannsóknir á jarðgöngum og sjaldan hefur jarðgangnagerð verið jafn hagkvæm og nú þegar brýn þörf er á nýjum sæstreng og nýrri vatnsleiðslu, afar kostnaðarsömum neðansjávarframkvæmdum. Vinna þarf hratt að uppbyggingu ljósleiðara í Vestmannaeyjum og skapa aðstæður fyrir fólk að flytja störf sín í auknum mæli í sveitarfélagið. Sporna þarf við spekileka á höfuðborgarsvæðið, við þurfum unga og frjósama fólkið okkar sem sækir framhaldsmenntun og með eflingu fjarnámsleiða við háskóla getum við haldið betur í þennan mikilvæga aldurshóp.
Það þarf að skipuleggja nýjar byggingalóðir, t.d. á malarvellinum, til að mæta aukinni eftirspurn. Það þarf að tryggja framúrskarandi þjónustu sveitarfélagsins sérstaklega leik- og grunnskóla en ekki síst þarf að hlúa vel að þeim sem lögðu grunninn að því samfélagi sem við byggjum í dag, eldri borgurum og tryggja þeim þá þjónustu, heilsueflingu og aðbúnað sem þeir eiga skilið.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi, sjúkraþjálfari og oddviti Sjálfstæðisflokksins
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst