Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Suðurlands í júlí dæmdir í sex mánaða fangelsi fyrir tilraun til ráns og líkamsárás þegar þeir reyndu að hafa fjármuni af öðrum karlmanni með því að neyða hann til að taka fjármuni út úr hraðbanka, mbl.is greindi frá.
Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn sem reynt var að ræna hafi komið á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum klukkan þrjú um nótt eftir ránstilraunina. Hafi hann verið áberandi ölvaður og greint frá því að maður hafi farið með sig í hraðbanka Landsbankans í Eyjum til að taka út pening. Það hafi ekki gengið eftir og þegar þeir komu út hafi annar maður komið að og slegið hann í hnakkann. Tóku tvímenningarnir því næst veski af manninum sem í var greiðslukort og 20-30 þúsund krónur í peningum.
Maðurinn sem ráðist var á sagðist hafa komist undan á hlaupum og falið sig í skurði þangað til hann gekk á lögreglustöðina. Í skýrslutökum síðar kom fram að annar árásarmannanna hefði talið brotaþolann skulda sér pening fyrir bjór. Hefði hann meðal annars hótað líkamsmeiðingum ef ekki kæmi til greiðslu. Þaðan hefði því leiðin legið í hraðbankann.
Samkvæmt myndbandi úr öryggismyndavél við bankann má sjá annan mannanna fara inn í anddyrið þar sem hraðbankinn var. Varnaði hann ítrekað manninum sem ráðist var á útgöngu og ýtti honum aftur að hraðbananum.
Þá staðfesti læknir sem skoðaði brotaþola daginn eftir að hann hefði fengið höfuðhögg en áverkar hefðu verið smávægilegir þrátt fyrir að alltaf væri hætta á að svona höggi gæti fylgt hætta. Þá hefðu áverkarnir komið heim og saman við frásögn brotaþolans.
Að mati dómsins var framburður brotaþola afar trúverðugur og vafalaust að báðir mennirnir sem ákærðir voru hefðu átt þátt í atburðarásinni. Hefðu þeir báðir tekið þátt í að hóta líkamsmeiðingum. Neituðu tvímenningarnir báðir sök, en dómurinn taldi framburð þeirra ótrúverðugan.
Eru þeir sem fyrr segir dæmdir til sex mánaða skilorðsbundins fangelsis og til að greiða allan málsvarnarkostnað.