Ótrúleg óbilgirni HSÍ og Haukar hafa sýnt ótrúlega óbilgirni vegna þátttöku ÍBV í Evrópukeppni kvenna. Neituðu að fresta leik sem fer fram á Ásvöllum í kvöld. Nú bætast samgönguerfiðleikar ofan á vanda Eyjakvenna og fara þær með Björgunarbátnum Þór í Landeyjahöfn til að geta mætt í leikinn á Ásvöllum í kvöld.
Með Þór í Landeyjahöfn
„Við komumst ekki með 9.30 ferð Herjólfs í morgun og ítrekuðum beiðni um frestun á leiknum í kvöld en það kom ekki til greina. Því er staðan þessi og við verðum að fara með Þór núna kl. 14.30,“ sagði Ellert Scheving, framkvæmdastjóri ÍBV – Íþróttafélags í samtali við Eyjafréttir.
Niðurstaðan er sú að ÍBV mun leika fjóra leiki á átta dögum auk þess að fljúga fram og til baka á London og Madeira. Þar leika þær á laugardag og sunnudag. Koma til Eyja á miðvikudaginn og mæta Val heima á fimmtudeginum. Harka Hauka hefur komið á óvart en HSÍ hefur ekki alltaf verið hliðhollt Eyjamönnum. Líka spurning hvort Haukakonur sjái færi á tveimur auðfengnum stigum í deildinni.
Rætt að mæta ekki
„Ég vil ekkert um það segja,“ sagði Ellert. „Stefán og Hafdís eru að gera góða hluti með Haukaliðið sem gæti verið í sömu stöðu og við á næsta tímabili. Komi til þess að þær vilji hnyka til leikjum gegn okkur munum við að sjálfsögðu bregðast ljúflega við því.“
Hann neitaði því ekki að rætt hefði verið um að mæta ekki í leikinn gegn Haukum. „Það var rætt en fór ekkert lengra. Ég veit að ÍBV konur eiga eftir að sýna hvað í þeim býr í leiknum í kvöld. En fyrst og fremst er þetta óvirðing við leikmenn og stefnir heilsu þeirra í voða,“ sagði Ellert að lokum.
ÍBV konur á leið í Landeyjahöfn með Björgunarskipinu Þór.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst