Nýr duftreitur hefur verið tekinn í notkun í Kirkjugarði Vestmannaeyja. Með því lýkur stækkunarferli garðsins sem staðið hefur yfir undanfarin ár, og markar þetta mikilvægt skref í umhverfisvænni og hagkvæmri nýtingu grafarsvæða.
Kirkjugarður Vestmannaeyja hefur verið í stækkunarferli undanfarin ár og nú sér fyrir endann á því í bili. Í sumar var sáð í nýjan reit í suðausturhorni garðsins, þar sem duftker munu fá sérstakan stað. Hlýtt og gott sumarið tryggði góðan vöxt og er reiturinn nú tilbúinn til notkunar.
Á vef Landakirkju kemur fram að margt mæli með því að hafa sérstakan reit fyrir duftker. Slík skipan sparar landrými og dregur úr þörf kirkjugarða fyrir að taka inn ný svæði. Þá er bæði hægt að jarða duftker í eldri kistureitum og þannig endurnýta pláss, sem og að nýta sérstaka duftreiti þar sem oft má jarða 2–3 ker í hverju grafarnúmeri. Þetta tryggir betri nýtingu, minna jarðrask og er því umhverfisvæn lausn.
Fram kemur einnig að talið sé að eftirspurn eftir brennslu og duftreitunum muni aukast með bættum aðbúnaði við brennslu, og jafnvel smám saman taka við af hefðbundnum kistugreftrum. Ekki sé heldur útilokað að brennsla verði í framtíðinni lögfest sem skylduaðferð, og því gott að vera undir slíkt búin að einhverju leyti.
Í nýja duftreitnum munu gilda sérstakar reglur um minningarmörk. Ennfremur segir að reglurnar verði kynntar á vef kirkjunnar þegar sóknarnefnd hefur samþykkt þær.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst