Dýpkunarskipið Perla liggur enn við bryggju í Vestmannaeyjum þar sem aðstæður í Landeyjahöfn eru ekki hentugar til dýpkunar. Ölduhæð hefur verið tæpir tveir metrar í morgun en hún má ekki vera meiri en einn metri svo skipið geti athafnað sig. Óttar Jónsson, skipstjóri á Perlu, segist lítið annað geta gert en að fylgjast með veðri og sjólagi á svæðinu á klukkutíma fresti. Hann á ekki von á því að geta hafið dýpkun fyrr en í fyrsta lagið eftir hádegið í dag.