Í árhundruðir voru náttúruhljóð það eina sem dundu á Eyjamönnum, söngur fugla, jarmið í rollunum, niður hafsins, vindur og regn svo ekki sé talað um mannamál hér og þar. Bátarnir liðu hljóðlausir frá festum sínum í höfninni sem var eins og vogur sem skar eyjuna og norðurkletta. Svo kom 1906.
Fólk er allskonar. Margir sjá djöfulinn í hverju horni, sitja nöldrandi heima og finnast allt sem gert er glatað, meðan aðrir sjá tækifærin í hverju horni og sumir þeirra hafa það í blóðinu að láta draumana rætast. Einn þeirra tók upp á því að setja vél í bátinn sinn. Nú hafði bæst við hljóðflóruna.
Ég væri til í að fara þessi tæplega 120 ár aftur í tímann og hlusta á úrtöluraddirnar, heyra hæðnishlátur glottandi úrtölumanna sem sáu enga framtíð í þessari vitleysu.
Cecil Faber er væntanlega flestum gleymdur. Hans afrek varð þess valdandi árið 1919 að Eyjamenn litu upp, því nú hafði bæst við hljóðflóruna, en í þetta skiptið barst hljóðið af himnum ofan. Þar var karlinn hann Cecil á ferð. Hann var kominn á spjöld sögunnar.
Árin liðu og það var ekki fyrr en 1928 að flugvél lenti í fyrsta sinn í Eyjum. Það var ein frægasta flugvél allra tíma á Íslandi Súlan, sjóflugvél sem tók 4 farþega. Úfinn sjór við eyjar gerði sjólendingar hér nánast ómögulegar. Því var auðséð að eina leiðin til að hefja áætlunarflug til eyja væri flugvöllur.
Í nóvember 1946 var Vestmannaeyjaflugvöllur vígður. Loftleiðir hófu þá áætlunarflug til Eyja og höfðu keypt 8 farþega Anson vél sérstaklega til flugsins. Fyrsta árið fluttu Loftleiðir 500 farþega milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. 1951 fluttu Loftleiðamenn 6000 farþega milli lands og eyja á DC3 flugvél sinni sem tók 30 farþega og var nefnd Helgafell Vestmannaeyingum til heiðurs. Stórhuga menn eins og sagan hefur sýnt. Icelandair er byggt á atorku þessara manna. Frá þeim tíma til ársins 2010 flugu tugþúsundir milli lands og eyja ár hvert allt til þess tíma er Landeyjahöfn opnaði og yfirvöld hættu að styðja við flugið. Landeyjahöfn átti að bjarga öllu. Nýir tímar framundan…. við þekkjum öll þá sögu.
Það ríkir víst mikil Þórðargleði hjá ráðamönnum í Eyjum. Áætlunarflug er hafið. 9 sæta rella frá Akureyri á að fljúga hingað 4 ferðir í viku, þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin. Það er sem sagt búið að negla það niður að áætlunarflug til eyja verði í Mýflugumynd næstu þrjú árin. 36 sæti í viku. Já, það þarf ekki mikið til að gleðja lítil hjörtu þeirra sem samfélaginu stjórna þessa dagana.
Frá því að Landeyjahöfn opnaði hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Eyjum lagst í dvala yfir vetrartímann eins og ísbirnir gera, þjónustufyrirtæki sem eiga allt undir ferðamönnum komið. Þegar króna klingir í kassa ferðaþjónustufyrirtækis, klingir önnur í kassa samfélagsins, nokkuð sem þeir sem samfélaginu stjórna ættu að kynna sér.
Hvað kosta svo herlegheitin? Byrjum á því að upplýsa hvað ferð aðra leiðina til Ísafjarðar, Egilsstaða og Akureyrar frá Reykjavík kostar með alvöru flugfélaginu. Akureyri 14.935,- Egilsstaðir 17.935,- Ísafjörður 17.935,-. Hver þessara flugferða aðra leið er um klukkustundar löng.
Vestmannaeyjar eru sér á báti. 20 mínútna ferðin aðra leið kostar 19.990,- krónur. Aftur á móti eru litla norðlenska félaginu greiddar kr. 691.062,- krónur fyrir hvert flug. Það gerir 38.062,- krónur á sæti aðra leiðina. Samtals kostar ferðin aðra leiðina milli lands og eyja því aðeins 57.962,- krónur á mann. 115.920,- fram og til baka.
Árið 2001 kostaði leiga á 50 sæta Fokker fram og til baka til eyja 265 þúsund krónur, framreiknað með reikninvél Hagstofunnar 834.229,- krónur. 100 sæti fram og til baka eða 8.342,- á sæti aðra leið. Árið 2001 voru þrjár ferðir á dag milli eyja og Reykjavíkur allan ársins hring. Í dag koma kringum 2,5 milljónir ferðamanna til Íslands ár hvert og þegar þessi orð eru skrifuð aka þúsundir ferðamanna í seilings fjarlægð frá okkur um suðurlandið á hverjum degi, sumar vetur vor og haust.
Fyrir hvern er þetta skammarlega flug? Fjórar ferðir í viku frá 1. des til 28. febrúar skilar akkorat ekki neinu fyrir samfélagið, síst af öllu þau fyrirtæki sem byggja allt sitt á því að ferðamenn komist til eyja.
Ég hef ávallt verið mótfallinn því að Vestmannaeyjabær sæi um rekstur Herjólfs. Hagsmunir bæjarins eru beinlínis þeir að sem flestir ferðist með ferjunni en fæstir með flugi. Það hefur víst sjaldan þótt góður business að fara í samkeppni við sjálfan sig. Þannig fara hagsmunir samfélagsins og ferjunnar engann veginn saman.
Ég tel og mæli með því að bæjarstjórn girði sig þegar í brók og krefjist þess að þessum fáránlega samningi verði sagt upp og gengið strax til samninga við eina alvöru flugfélagið á Íslandi, Icelandair.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst