„Við vorum ekki látin vita af kaupum Landsbankans á TM en við vorum þangað til í mars sl. annar stærsti hluthafinn í bankanum, með 0,02% hlut,“ sagði Haukur Jónsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja í samtali við Eyjafréttir.
Það eru ekki margir sem vita að Vestmannaeyingar eru hluthafar í Landsbankanum þar sem ríkið fer með stærsta hlutinn, rúm 99 prósent. Vestmannaeyjabær á 3.529.146 hluti eða 0,015%. Þá eiga fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja óverulegan hlut. „Ég mun fylgjast með fundinum í streymi,“ sagði Íris Róbertdóttir bæjarstjóri þegar hún var spurð um hvort hún ætlaði að mæta á ársfund bankans.
En hver er afstaðan til kaupanna á TM? „Málið hefur ekki verið rætt á vettvangi bæjarstjórnar eða bæjarráðs enda erum við mjög lítil í bankanum, þó við séum núna annar stærsti eigandinn á eftir ríkinu. Þessar áætlanir um kaupin á TM eru mjög vandræðalegar fyrir alla aðila sem að því ferli komu. Ég persónulega er á móti kaupunum tel það ekki hlutverk ríkisinsbankans að eiga tryggingarfélag,“ sagði Íris.
„Ég hef einu sinni mætt á ársfund Landsbankans og það var einfaldlega vegna þess að ég var staddur í Reykjavík,“ sagði Haukur. „Við erum það lítil að atkvæði okkar skipta ekki máli. Reyndar minnkaði okkar hlutur úr 0,02 prósentum í 0,002 prósent í mars á þessu ári og ekki aukast áhrif okkar á stefnu bankans við það.“
Mynd – Landsbankinn er með útibú í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst