Fágætissalur í Ágústarstofu var opnaður í Safnahúsinu í gær að viðstöddu fjölmenni. Hófst dagskráin í Ráðhúsinu þar sem flutt voru stutt ávörp.
Um er að ræða eitt merkilegasta fágætisbókasafn landsins opnað almenningi en uppistaðan í því er um 1500 bækur sem Ágúst Einarsson, fyrrverandi prófessor og rektor á Bifröst hefur gefið Bókasafni Vestmannaeyja. Þar verður meðal annars að finna allar útgáfur Biblíunnar frá Guðbrandsbiblíu 1584, Þorláksbiblíu 1644og Steinsbiblíu 1728 að telja. Elsta bókin í safninu er Vögguprent, frá 1498. Þá verða einnig í fágætissalnum 37 málverk eftir Jóhannes Kjarval en Vestmannaeyjabær mun eiga eitt stærsta safn Kjarvalsverka sem loksins verða gerð aðgengileg á varanlegri sýningu. Verk eftir Júlíönu Sveinsdóttur prýða veggi sérstaks átthagarýmis með rösklega 2.000 bókum og blöðum, auk Íslandskorta frá um 1570.
Fyrsti hluti dagskrárinnar, sem fram fór í Ráðhúsinu, má sjá hér að neðan. Upptakan er af myndbandssíðu Sagnheima. Upptöku og myndvinnslu annaðist Halldór B. Halldórsson. Fleiri myndbönd frá opnuninni verða sýnd á næstu dögum auk þess sem dagskránni verða gerð góð skil í næsta blaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst