Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs og á móttökustöð var til umfjöllunar á síðasta fundi framkvæmda- og hafnarráðs. Fyrir fundinum lá tillaga að gjaldskrá frá Terra sem byggir á einingarverðum frá síðasta sorpútboði.
Fram kemur í fundargerð að meirihluti ráðsins leggi áherslu á góða kynningu til íbúa og fyrirtækja um breytingu á gjöldum varðandi úrgang til losunar á móttökustöð og hefst gjaldtaka 3.mars. Var starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að útfæra það.
Í bókun frá Sæunni Magnúsdóttur og Hannesi Kristini Sigurðssyni fulltrúum Sjálfstæðisflokks segir að þau geti ekki samþykkt gjaldskrána eins og hún er lögð fram. Við yfirferð komu í ljós miklar hækkanir og breytingar sem ekki hafa verið kynntar, t.a.m. gjald fyrir ólitað timbur sem samþykkt var af ráðinu að yrði gjaldfrjáls við síðustu gjaldskrárbreytingu þrátt fyrir tillögu um annað. Þá hafa fleiri gjaldfrjálsir flokkar verið sundurliðaðir, t.d. endurvinnsluefni, og gjald lagt á flesta nýju liðina, t.d. garðúrgang. Þá er gerð athugasemd við að breytingar sem þessar séu ekki kynntar með skýrum hætti fyrir ráðinu þegar breytt gjaldskrá er kynnt svo glöggt megi sjá þær breytingar sem lagðar eru til. Fulltrúar D lista leggja einnig áherslu á að allir möguleikar til þess að takmarka kostnað við förgun úrgangs sem fellur á íbúa Vestmannaeyjabæjar verði skoðaðir.
Í bókun sem Erlingur Guðbjörnsson, Helga Jóhanna Harðardóttir og Sveinn Rúnar Valgeirsson fulltrúar E- og H-lista lögðu fram segir: Hækkanir og breytingar á gjaldskrá koma til vegna áður samþykkts tilboðs við Terra.
Í afgreiðslu málsins segir: Framkvæmda- og hafnarráð samþykkir tillögu Terra að gjaldskrá fyrir móttöku og förgun á úrgangi í móttökustöð. Var framangreint samþykkt með þremur atkvæðum E- og H-lista gegn tveimur atkvæðum D-lista.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst