Við minnumst þess núna að hálf öld er liðin frá goslokum. Það voru svo sannarlega gleðitíðindi þegar því mátti slá föstu að hinum hrikalegu eldsumbrotum væri lokið. Þessa sögu þekkið þið Eyjamenn auðvitað miklu betur en ég, ekki síst þau sem hér bjuggu þegar hamfarirnar hófust.
Þá var ég reyndar ekki fædd. Auk þess verð ég að viðurkenna að ég vissi lítið sem ekkert um þennan geigvænlega atburð Íslandssögunnar fyrr en ég flutti hingað og fór að læra íslensku. Ég man að þá vorum við í náminu látin lesa frásögn ungrar Eyjastúlku sem var vakin um miðja nótt og þurfti að flýja upp á fastalandið ásamt öllum öðrum íbúum. Síðan hef ég margoft heimsótt Heimaey og fræðst frekar um þá hetjudáð sem unnin var á svipstundu, undir eldi og eimyrju.
Hálfri öld síðar má auðvitað fagna goslokum og sömuleiðis því hvernig til tókst við björgunarstörf og uppbyggingu. Við stöndum öll í þakkarskuld við þann fjölda fólks sem lagði svo hart að sér á þeim vettvangi. Og þar sem ég á rætur mínar utan Íslands nefni ég einnig sérstaklega erlenda aðstoð, ekki síst frá frændþjóðum á Norðurlöndum. Einnig komu tæki og tól frá bandaríska varnarliðinu víst að góðum notum. Þá segir þorskastríðssagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson mér að gosnóttina sjálfa hafi breskir og vestur-þýskir togarasjómenn boðist til að taka þátt í mannflutningum, í miðri landhelgisdeilu, en ekki hafi þurft að þiggja þá hjálp. Vinur er sá sem í raun reynist og allt sýnir þetta okkur að þótt við séum sjálfum okkur nóg er nauðsynlegt að eiga líka trausta bandamenn.
Á þeim tímamótum sem nú eru runnin upp er mest um vert að fagna því sem vel var gert. Um leið má þakka fyrir að mannslíf glötuðust ekki gosnóttina sjálfa og að aðeins einn maður lést á eynni á meðan eldgosið varaði. Loks getum við glaðst yfir því að samfélagið efldist á ný þegar hægt var að hefjast handa við endurreisn og uppbyggingu. Nú er blómleg byggð hér á Heimaey. Hingað streymir ferðafólk sem vill njóta ægifagrar náttúru, félagsskapar eyjarskeggja og ekki síst að fræðast um jarðeldinn mikla sem ógnaði lífi og búsetu fyrir hálfri öld. Nú er Eldfell vinsælt til uppgöngu og Eldheimar frábært sögusafn. Nú bíður framtíðin með öllum sínum tækifærum.
Ég ítreka hlýjar kveðjur mínar til Eyjamanna og þakka um leið fyrir alla þá gestrisni og góðvild sem ég hef ætíð notið á eyjunni fögru.
Eliza Reid, forsetafrú.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst