Hækkanir á gjaldskrá HS Veitna voru til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í vikunni. Þar var farið yfir svar umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis við beiðni bæjarstjórnar um rökstuðning og upplýsingar um allar þær hækkanir sem lágu til grundvallar við samþykkt gjaldskrárhækkana HS Veitna á heitu vatni.
Í svarinu kemur fram að helstu skýringar HS Veitna á hækkunum eru annars vegar verulegur taprekstur síðastliðin ár og hins vegar hækkanir hjá Landsneti og Landsvirkjun. Á grundvelli þessara skýringa hafi ráðuneytið samþykkt umræddar gjaldskrárhækkanir en bendir á að samhliða hækkunum hafi ráðuneytið hækkað niðurgreiðslur til húshitunar í Vestmannaeyjum og sé orkuverðið því sambærilegt við verð annarra fjarmaveitna/rafkyntra veitna hérlendis.
Jafnframt kemur fram í svari frá ráðuneytinu að sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar um afkomu hitaveitustarfseminnar í Eyjum árið 2024, með og án hækkunar gjaldskrár, sem voru í viðauka með bréfi HS Veitna til ráðuneytisins í nóvember 2023 verði ekki afhentar að svo stöddu þar sem HS Veitur bera því við að um sé að ræða vinnugögn og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, sem undanþegnar séu upplýsingarétti.
Bæjarstjórn óskaði eftir samskonar upplýsingum frá Orkustofnun en ekki hefur borist svar frá þeim.
Í afgreiðslu ráðsins segir að bæjarráð fari fram á það við ráðuneytið að fá þau gögn sem liggja að baki erindi HS Veitna frá því í júní og nóvember 2023. Einnig ítrekar bæjarráð i þriðja sinn að Orkustofnun svari erindinu ellegar þurfi Vestmannaeyjabær að leita annarra leiða til að fá upplýsingarnar frá stofnuninni.
https://eyjar.net/svar-an-innihalds/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst