„Við stofnuðum hljómsveitina, Ennisrakaðir skötuselir árið 1988 og var hún hugarfóstur mitt og afsprengi af dansiballahljómsveitinni 7- Und sem var feykivinsæl á þessum árum. Þeir fóru víða um land og vorum við með hálftíma til þriggja kortera konsert með Ennisrökuðum á hverju balli. Fyrsta platan kom út árið 1989 og spiluðum við á þjóðhátíðinni sama ár,“ segir Elías Bjarnhéðinsson, El Puerco öðru nafni sem nú stefnir á sjöundu plötuna á næstu vikum.
Elías er Eyjamaður í húð og hár, hefur víða komið við og margt brallað. Foreldrarnir voru Ingibjörg Johnsen sem lét mikið að sér kveða og Bjarnhéðinn Elíasson útgerðarmaður og skipstjóri. Elías á sér hressilegan feril, var atkvæðamikill í handboltanum með Þór hér í denn, fór ótroðnar slóðir í tónlistinni, er kerfisfræðingur, starfaði í nokkur ár í Svíþjóð og bjó á Spáni í sjö ár. Varð innlyksa þar í Kófinu og fékk í fangið að aðstoða fólk sem komst í vandræði þegar allt var lokað. Rauði þráðurinn hefur samt alltaf verið tónlistin og nú er hann f luttur í heimahagana og vinnur að nýju plötunni.
Í upphaflegu hljómsveitinni voru Hlöðver Guðna á gítar, Páll Viðar á hljómborð, Oddur F. á trommur og Högni Hilmis á bassa. „Vorum svo með fullt af liði í bakröddum og var Andrea Gylfa í þeim hópi. Við vorum að spila um allar jarðir og strákarnir spiluðu með 7- Und þannig að þetta passaði allt. Tveimur árum síðar gáfum við út plötuna Þjóðflokkurinn. Hana tókum við upp á Púlsinum í Reykjavík,“ segir Elías og áfram var haldið. „Næsta plata fékk nafnið, Elías, en ekki hvað? Þá kom plata með efni af fyrri plötum sem við kölluðum Skást of El Puerco,“ segir Elías og þeirri næstu lýsir hann margfrægri aðgerð sem hann fór í og langri legu á Landspítalnum. „Það var aðgerð á baki eftir handboltaferilinn sem misheppnaðist herfilega. Hálf ílengdist þar í ein þrjú ár og var í átta mánuði á sýkladeildinni. Þá gerði ég þessa plötu, Heilsugeirinn með lögum eins og Læknalestinni, Hjúkkuliðinu, Rúmlega matskeið og fleiri skemmtilegum lögum. Samhliða Heilsugeiranum gerðum við ensku plötuna, Before I leave The Planet. Fimmtán lög og öll á ensku. Góður titill á plötu og ekki hægt að hafa þetta öllu meira afgerandi. Drífa í að gera plötu áður en þú yfirgefur plánetuna,“ segir Elías og hlær.
„Fólk hélt ég var í einhverjum sjálfsmorðshugleiðingum en ég var það ekki. Þess vegna dreif ég út plötuna Returning to Earth sem kom út í fyrra. Þar er ég einn á ferð með mína blíðu rödd og gítarinn. Eðlilegt framhald eftir að hafa starfað sem trúbador á Spáni og núna erum við komnir til ársins 2025. Erum að vinna plötuna Casa del Puplicum sem er vísun í Alþýðuhúsið þar sem þeir æfa.“ Á henni eru tíu lög á íslensku, þrjú með spænskum texta, eitt á sænsku og eitt á ensku. „Við erum að taka hana upp hjá Unnari Gísla, Júníusi Meyvant. Biggi Nilsen er á trommunum, Högni Hilmis, stríðsfréttaritarinn okkar plokkar bassann og Palli Viðar fer fingrum um hljómborðið. Hann er að koma frá Danmörku og klárar sitt á næstu vikum. Upptökustjóri er Kristinn Sigurpáll Sturluson í Stúdíó Sýrlandi. Elías er sáttur við söluna á plötunum þegar hann lítur til baka.
„Það hefur tekið tíma að koma sölunni af stað en hefur reddast á endanum. Nú er það ekki plötusalan sem skiptir máli heldur spilanir á streymisveitum. Þú þarft að borga pening til að fá spilun á þessum veitum en það er eitthvað sem ég kann ekki. En platan er með alþjóðlegu yfirbragði og það er alltaf stutt í húmorinn sem skemmir ekki,“ segir Elías og leyfir blaðamanni heyra nokkur tóndæmi.
Lofar góðu, flott spil og röddin ráma heldur sínum sjarma. Þegar þar að kemur verða útgáfutónleikar í Alþýðuhúsinu og í Þorlákshöfn. „Gæti verið mánuður í útgáfu og við munum vara fólk við áður en platan kemur út. Við lofum stuði og stemningu og El Puerco og Ennisrakaðir hafa engu gleymt,“ segir listamaðurinn og glottir.
Hér má hlusta á plötuna Skást off, Returning to earth, og Before I leave the planet.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst