Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í vikunni. Bergur landaði á mánudag í Grindavík og Vestmannaey í Vestmannaeyjum í gær. Rætt er við skipstjóra skipanna á vefsíðu Síldarvinnslunnar í dag. Fyrst er rætt við Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergi.
„Við byrjuðum túrinn á Pétursey og Vík. Þar var létt nudd, þorskur og smá ufsi með. Vegna veðurs flúðum við síðan vestur fyrir Garðskaga. Þar vorum við í skjóli og lentum í ágætis skoti. Fengum bæði þorsk og ýsu. Við lönduðum síðan nánast fullfermi í Grindavík. Að löndun lokinni var haldið til Eyja. Gert er ráð fyrir að fara á sjó á ný í dag,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að þessi túr hefði verið með rólegasta móti. „Við byrjuðum á Pétursey og Vík en færðum okkur vegna veðurs á Eldeyjarbankann. Veiðin var heldur róleg en fiskurinn sem fékkst var mjög góður. Staðreyndin er sú að vertíðarfiskurinn er ekki kominn ennþá á okkar mið. Hann er örugglega að bíða eftir loðnunni. Venjulega kemur hann rétt á undan loðnunni og við trúum því að hún sé að koma,” sagði Egill Guðni. Vestmannaey mun halda til veiða á ný á morgun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst