Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis Þórarinssonar, sem nýverið fór úr Miðflokknum í Sjálfstæðisflokkinn sagði Í bítinu á Bylgjunni í morgun að hún ætli ekki að skipta yfir í Sjálfstæðisflokkinn eins og Birgir.
„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna.
Hún sagði að hún væri „bara varaþingmaður“ og að hún ætlaði að sinna áfram þeim verkefnum sem hún sinnti áður en hún tók sæti á lista flokksins, en það eru sem dæmi að stýra vinnu í hópnum Aðför að heilsu kvenna. Þau mál hafi fallið vel að stefnu flokksins og þess vegna hafi hún tekið sæti á lista.
„Ég hef ekki svo sem meira um það að segja. Ég er þá kannski, eins og þú segir, frægust fyrir að vera varaþingmaður sem aldrei komst á þing,“ sagði Erna og hló.
Hún sagðist ekki ósátt við ákvörðun Birgis og að hann yrði að vera sáttur við sínar ákvarðanir og sína sannfæringu. Hvað varðar tímasetningu brotthvarfsins sagðist hún ekkert hafa við umræðuna að bæta.
Erna sagði að hún væri enn varaþingmaður Birgis, hún gæti ekki verið neitt annað, en að hún ætlaði sér að vera áfram í Miðflokknum.
„Ég er ekkert að fara í neinn annan flokk,“ sagði Erna.
Hún sagði að auðvitað væri sér brugðið við ákvörðun Birgis eftir að hafa varið miklum tíma með honum í kosningabaráttunni og ferðast með honum um kjördæmið en að það væri mikilvægt fyrir fólk að fylgja sinni innri rödd, sannfæringu og pólitísku sýn, það væri Birgir að gera og það ætlaði hún að gera.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst