ÍBV sækir í dag Stjörnuna heim í Garðabæinn en leikur liðanna hefst klukkan 18:00. Leikurinn er báðum liðum afar mikilvægur í baráttunni um sæti í Evrópukeppni á næsta ári en aðeins eitt stig skilur liðin að. ÍBV er í þriðja sæti með 26 stig en Stjarnan er í því fjórða með 25. Eyjamenn töpuðu í síðasta leik fyrir Keflavík á heimavelli og mega varla við því að tapa mikið fleiri leikjum í baráttunni um Evrópusætið.