Fáir viðburðir sem tengst hafa gosinu 1973 hafa skilað sögu Vestmannaeyja síðustu áratuga betur en Eyjahjartað. Það verður haldið í ellefta og síðasta skiptið í Einarsstofu klukkan 13.00 á sunnudaginn fyrsta október. Þar hefur Eyjafólk, flest brottflutt sagt sögur frá uppvextinum í Vestmannaeyjum frá miðri síðustu öld og fram á þessa. Nú mæta þau Martin Eyjólfsson, Sara Hafsteinsdóttir og Sigríður Johnsen sem öll slitu barnsskónum í Eyjum.
Martin eða Malli eins og við þekkjum hann stýrir utanríkisráðuneytinu í dag. Hann kallar erindi sitt, Komið fagnandi sem vísar til þess þegar hann lék með ÍBV á árunum um og eftir 1990 og Eyjamenn settu mark sitt á fótboltann með leikrænum fögnum eftir hvert mark sem enginn hefur náð að leika eftir.
Bjargvættur og sögukonur
Malli fékk viðurnefnið bjargvætturinn þegar hann bjargaði ÍBV tvívegis frá falli á jafn mörgum árum. Skoraði tvö mörk í sigri gegn KA á Þórsvellinum 1992 sem varð til þess að ÍBV endaði með sextán stig, einu stigi frá fallsæti. Dramatíkin varð enn meiri ári síðar þegar ÍBV og Fylkir léku hreinan úrslitaleik um hvort liðið félli. Staðan var 0:0 og komið var fram yfir venjulegan leiktíma þegar Martin skoraði sigurmarkið og Eyjamenn hreinlega ærðust af fögnuði. Nú er staðan ekki ósvipuð hjá ÍBV.
Sara kallar sitt erindi, Það sem ekki má og Sigríður, Ævintýri við hvert fótmál. Sara er barnabarn Oddgeirs Kristjánssonar heitins og hefur nýlokið starsferli sem sjúkraþjálfari. Sara er stálminnug og kann að segja frá eins og allir sem til hennar þekkja vita. Sigga Johnsen er dóttir Súlla á Saltabergi og því komin af sögufólki. Sigríður var kennari og lauk starfsferlinum sem skólastjóri í Mosfellsbæ. Þær hafa frá mörgu að segja og öll þrjú fylla þau upp í þá mynd sem Eyjahjartað hefur brugðið upp af mannlífi liðinna ára í Vestmannaeyjum.
Eyjahjartað er hugarfóstur Atla Ásmundssonar sem hann gaukaði að Kára Bjarnasyni fyrir um áratugi síðan og hafa Þura Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson setið ásamt Atla í stjórninni frá upphafi. Smám saman varð til sá taktur sem við þekkjum, þar sem fólk segir frá æskudögunum í Eyjum og rekur þau áhrif sem það varð fyrir. Inn í frásagnirnar fléttast fólk lífs og liðið sem setti svip sinn á bæinn og samtímann.
Fjársjóður framtíðar
Oft eru frásagnirnar á léttu nótunum en lífið er ekki alltaf leikur og það kemur líka fram. Já, þau Atli, Einar Gylfi og Þura að ógleymdum Kára eiga mikinn heiður skilinn fyrir að hafa haldið slætti Eyjahjartans gangandi. Þarna er verið að segja söguna af fólki sem var á staðnum í þess orðs fyllstu merkingu og þessu þarf að halda til haga. Þá er ekki síður frábært að Halldór Halldórsson hefur tekið upp frásagnirnar á myndband sem ekki mega týnast. Eins hafa Eyjafréttir sagt frá því sem Eyjahjartað hefur boðið upp á og rakið frásagnirnar. Allt er þetta efni fyrir sagnfræðinga og þjóðháttarfræðinga framtíðarinnar að skoða.
Eyjahjartað var haldið tvisvar árin 2018 og 2019 en það lagðist í dvala í Kófinu en nú skal lokatónninn sleginn og tímasetningin er engin tilviljun. „Lundaballið er á laugardaginn og það dregur fjölda manns til Eyja. Því fannst okkur tilvalið að nota sömu helgina. Aðsókn hefur alltaf verið góð og komust færri að en vildu árið 2019,“ sagði Einar Gylfi formaður stjórnar sem er þakklátur öllum sem lagt hafa þeim lið í gegnum árin. „Atli og Þura eru drífandi fólk sem gaman er að vinna með og Kári hefur ekki látið sitt eftir liggja. Þetta hefur verið skemmtilegt og gefandi en nú er mál að linni,“ sagði Einar Gylfi sem vonast til að sjá sem flesta á sunnudaginn.
Mynd: Einar Gylfi, Þura og Atli í hópi gesta á Eyjahjartanu 2018.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst