Vestmannaey VE landaði í heimahöfn í Vestmannaeyjum í gær. Um fullfermi var að ræða og var aflinn mest ýsa og þorskur ásamt dálitlu af ufsa.
Rætt er við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar . Þar er hann spurður hvort hann sé ekki ánægður með túrinn. „Jú, það er vart hægt að vera annað. Við fórum út seint á fimmtudagskvöld og vorum einungis í um 40 tíma að veiðum. Það var keyrt beint austur á Ingólfshöfðann og á þeim slóðum vorum við allan tímann. Það gekk vel að veiða og það var rjómablíða allan túrinn. Strax eftir löndun skal halda út og nú á að reyna við ufsa. Ég er ekkert alltof bjartsýnn á að það gangi vel,” sagði Birgir Þór.
Systurskipið Bergey VE kom síðan til löndunar í Eyjum í morgun einnig með fullfermi. Jón Valgeirsson skipstjóri var hress þegar heimasíðan sló á þráðinn til hans. „Það gekk vel að veiða og aflinn var mest ýsa og þorskur. Veitt var á Ingólfshöfða og Mýragrunni í fínasta veðri. Túrinn var stuttur og hann gekk vel í alla staði. Það eina sem unnt er að kvarta undan er hve illa gengur að finna ufsann,” sagði Jón.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst