Fargjöld stakra farmiða í landsbyggðarstrætó munu hækka úr 570 kr. í 600 kr. þann 1. júlí næstkomandi. Breytingin er í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs en síðast var fargjald í strætó á landsbyggðinni hækkað í júlí 2023. Verð á tímabilskortum og nemakortum haldast óbreytt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Fargjöld með landsbyggðarstrætó eru greidd um borð í vögnunum með reiðufé, greiðslukortum eða tímabilskortum. Allar upplýsingar um tímaáætlun og ferðir vagna má finna á straeto.is eða í Klapp-appinu, segir í tilkynningunni.
Á vef strætó segir að hækkunin nemi 5,3%. Verð á tímabilskortum mun haldast óbreytt. Sem dæmi fer ferð frá Reykjavík til Akureyrar úr 12.540 kr. í 13.200 kr. og ferð frá Reykjavík til Keflavíkur úr 2.280 kr. í 2.400 kr.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst