Fjallað var um fyrirspurnir til Vestmannaeyjabæjar á síðasta fundi bæjarráðs. Í fundargerð ráðsins segir að fjöldi formlegra fyrirspurna á grundvelli upplýsingalaga til Vestmannaeyjabæjar, er varðar hin ýmsu mál sveitarfélagsins og félaga í eigu þess, hafi verið 221 á árinu 2024. Þá er þess getið að allar fyrirspurnirnar að tveimur undanskildum hafi borist frá einum og sama einstaklingnum.
Ekki er þetta í fyrsta sinn sem greint er frá fyrirspurnarfjölda til bæjaryfirvalda, því í fyrra var greint frá því að 348 formlegar fyrirspurnir hafi borist á árinu 2023 og bárust þær frá einum einstaklingi. Þá var greint frá því að sá tími sem fór í svara fyrirspurnunum jafngilti u.þ.b. hálfu stöðugildi starfsmanns allt árið.
Leiða má líkum að því að um sama einstakling sé að ræða sem er svona ofboðslega áhugasamur um allt er við kemur rekstri sveitarfélagsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst