„Þetta var velheppnaður fundur, vel sóttur og gagnlegar umræður sem margir tóku þátt í,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum eftir fund efstu manna listans í kjördæminu. Fundurinn var í AKÓGES og með honum voru Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur og kúabóndi sem er í öðru sæti, Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi alþingismaður í þriðja sæti og Kristófer Máni Sigursveinsson, verkstjóri Sandgerði sem skipar fjórða sæti listans.
Heilbrigðismál voru ofarlega á baugi, líka samgöngumál og útlendingamál sem Miðflokksmenn segja í miklum ólestri. „Stefna okkar er sú að við eigum ekki að taka við neinum hælisleitanda. Verðum að verja landamærin og nýta okkur þær heimildir sem við höfum innan Schengensvæðisins. Með þeim getum við komið í veg fyrir að hingað streymi fólk, alveg stjórnlaust og gangi óheft í vasa skattgreiðenda. Við eigum að velja sjálf hvaða fólki við bjóðum til okkar og taka vel á móti þeim. Eins og við gerðum hér áður fyrr.“
„Við þurfum líka að sinna erlendu fólki sem hingað er komið til að vinna. Snúa af þeirri braut að ekki sé töluð Íslenska í landinu. Gera áætlun um hvernig við ætlum að kenna þeim íslensku til að nota í sínum störfum, ekki síst í þjónustu,“ sagði Karl Gauti og vísaði til hinna Norðurlandanna.
Verjum landamærin
„Við höfum fullt af möguleikum til að verja landamærin. Getum tekið upp áritunarskyldu gagnvart löndum þaðan sem líkur eru á að glæpamenn komi frá. Verðum að taka upp virkt landamæraeftirlit eins og margar þjóðir hafa gert. Það höfum við ekki gert þrátt fyrir að hér hafi ástandið verið hvað verst í Evrópu. Þetta lýsir ákvörðunarfælni og ber vott um stjórnleysi í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þessu vill Miðflokkur breyta og hefur talað fyrir frá upphafi, að við stjórnum okkar landamærum sjálf og höldum í heiðri fullveldi landsins.“
Karl Gauti nefndi líka ríkisfjármálin sem hann sagði í ólestri. „Við verðum að byrja á að hætta að eyða milljörðum í hælisleitendur. Minnka báknið, draga verulega saman án þess að segja upp fólki. Við viljum sjá minni útgjöld í borgarlínu, til RÚV og lækka greiðslur til stjórnmálaflokka,“ voru meðal atriða sem Karl Gauti nefndi.
Hann sat á þingi frá 2017 til 2021 og voru samgöngur við Vestmannaeyjar eitt af hans helstu baráttumálum. „Við verðum að klára rannsóknir á jarðlögum til að fá úr því skorið hvort göng milli lands og Eyja eru raunhæfur kostur. Vinna þarf að því að bæta Landeyjahöfn til þess að hún standi undir nafni sem heilsárshöfn. Bæta flug til Vestmannaeyja með því að fjölga ferðum og lengja tímabilið í minnst fimm mánuði,“ sagði Karl Gauti sem er á leið á þing samkvæmt skoðanakönnunum.
„Við erum bjartsýn. Finnum mikinn meðbyr og ekki síst í Vestmannaeyjum þannig að ég lít björtum augum til laugardagsins.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst