Nóg er um að vera hér í Eyjum á komandi mánuðum, og er dagskráin fjölbreytt og spennandi. Ýmsir viðburðir, ráðstefnur, hlaup og skemmtanir standa til. Hér er yfirlit yfir helstu viðburðina sem þú ættir ekki að láta fram hjá þér fara.
Pöbbkviss á Háaloftinu í Höllinni
Næstkomandi laugardag, 15. febrúar munu Jón Helgi Gíslason og Andri Hugo halda uppi stemningunni á Háaloftinu í Höllinni með ,,pöbbkvissi”. Tilvalið að skella sér í létta og skemmtilega keppni. Spurningarnar eru af ýmsum toga, þannig að allir eiga möguleika á að spreyta sig. Vegleg verðlaun veitt fyrir þrjú efstu liðin.
Jónas Sig ásamt hljómsveit
Jónas Sig snýr aftur til Eyja með hljómsveitina sína og heldur tónleika í Höllinni þann 22. febrúar. Vestmanneyingar þekkja Jónas vel, enda hefur hann ásamt hjómsveit sinni fyllt húsið í gegnum árin.
MEY ráðstefna
MEY kvennaráðstefnan á vegum Visku verður haldin nú í þriðja sinn þann 5. apríl næstkomandi. Markmið ráðstefnunnar er að sameina konur, styrkja, gleðja og valdefla. Fyrirlesarar í ár verða þær Anna Steinsen, Kristín Þórsdóttir og Perla Magnúsdóttir. Miðasala hefst 1. mars. Frekari upplýsingar má finna hér.
Hljómey
Hlómey tónlistarhátíðin verður haldin nú í þriðja sinn, föstudaginn 25. apríl. Vestmanneyingar opna heimili sín fyrir tónlistargestum og skapa notalega og persónulega stemningu. Meðal þeirra sem munu koma fram eru þau Friðrik Dór, Árný Margrét, Pálmi Gunnars og Bjartmar Guðlaugs.
Puffin Run
Hið árlega Puffin Run verður haldið þann 3. maí. Hlauparar víðsvegar að af landinu koma saman og keppa í þessu magnaða og skemmtilega hlaupi.
Meiri púðursykur uppistand
Grínhópurinn Púðursykur stígur á svið með sýningu sína, Meiri Púðursykur þann 3. maí í Höllinni. Fram koma: Björn Bragi, Dóri DNA, Emmsjé Gauti, Jóhann Alfreð og Saga Garðars. Einnig verður steikarhlaðborð frá Einsa kalda fyrir sýningu. Frekari upplýsingar hér.
Nýdönsk
Nýdönsk stígur á svið í Höllinni þann 30. maí, sem er föstudagur fyrir Sjómannadagsgleðina. Síðast þegar hljómsveitin steig á svið var uppselt.
Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á komandi vikum og mánuðum, enda nóg framundan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst