„Hér eru menn frá Póllandi, Lettlandi, Danmörku, Noregi og Rúmeníu. Allt karlmenn nema ein kona sem kemur einstaka sinnum. Píparar, rafvirkjar og aðrir iðnaðarmenn að mestu sem vinna inni í Botni og austur í fjöru. Líka menn frá Þjótanda sem sér um jarðvegsvinnu og Íslendingar sem bora eftir sjó austur í fjöru. Flestir búa hér en nokkur fyrirtæki hafa starfsmenn sína í skiptikerfi, þeir vinna þá hjá okkur í þrjár til sex vikur og fara svo heim og koma aftur þegar næsti hópur fer heim,“ segir Sólveig Rut Magnúsdóttir, starfsmaður LAXEY (ILFS) sem hefur yfirumsjón með búðum félagsins við Helgafell. Í daglegu tali kallað Hótel Helgafell sem er á austurhluta Helgafellsvallar. Alls eru íbúðirnar 88 í tveimur tveggja hæða lengjum. Fyrstu íbúarnir fluttu inn í maí.
Þetta eitt sýnir umfang Laxeyjar í Vestmannaeyjum sem er að reisa seiðaeldisstöð innst í Friðarhöfn og laxeldisstöð í Viðlagafjöru. Gert er ráð fyrir fyrstu hrognunum í haust og næsta sumar á eldisstöðin að vera tilbúin að taka á móti fyrstu seiðunum. Það er því mikið að gera á öllum vígstöðvum hjá Laxey en þetta er stærsta einstaka framkvæmd í Vestmannaeyjum frá upphafi. Í dag eru starfsmenn um 120.
Gert er ráð fyrir að verkið taki allt að sjö ár og segir Sólveig að eitthvað sé um að menn vilji fá fjölskyldurnar til sín. „Það er að aukast og þetta eru menn sem ætla sér að vera allan tímann. Taka íbúðir á leigu og eru barnafjölskyldur í þessum hópi,“ segir Sólveig og nefnir Renāte sem sér um þrif í búðunum sem dæmi. Maður hennar vinnur inni í Botni og eiga þau tvo stráka, átta og ellefu ára. „Þeir byrjuðu í skóla í gær og voru mikið spenntir. Finnst æðislegt að vera að byrja í skólanum.“
Sólveig Rut Magnúsdóttir hefur yfirumsjón með búðunum við jaðar Helgafells.
Sólveig Rut og Renāte í annarri kaffi– og eldunaraðstöðu búðanna.
Núna er allt fullt á Hótel Helgafelli en hvernig gengur að stýra hótelinu? „Það gengur ágætlega en nóg að gera. Það hafa engir stórir árekstrar orðið og allir sem hér búa hafa komið vel fram gagnvart mér. Ég úthluta herbergjum, skrifa leigusamninga og sé um að allt sé í lagi. Mikil vinna hefur verið í kringum vinnubúðirnar svona til þess að byrja með enda erum við að tala um rekstur á 88 herbergjum, ég hef mikið verið að skjótast á kvöldin til þess að taka á móti nýjum starfsmönnum og redda þeim hlutum sem þarf að græja“ segir Sólveig sem að endingu sýndi íbúðir og aðstöðu sem er í boði.
Íbúðirnar eru ekki stórar en vistlegar, með svefnplássi og snyrtiaðstöðu. Stór setustofa er í hvorri lengju og rúmgóð kaffi- og eldunaraðstaða með borðum og stólum.
Safna fyrir nýju húsi í Lettlandi
Renate, Endijs, Sandris og Deivids.
„Þetta er sjöunda árið sem að maðurinn minn er við vinnu á Íslandi. Laun eru mjög lág í Lettlandi en verð í búðum eru þau sömu og hér á landi þannig að við ákváðum að flytja okkur um sess til Íslands. Önnur ástæða fyrir því að við erum hérna er draumurinn um að byggja okkar eigið hús heima” segir hin lettneska Renāte Heisele sem sér um þrif á búðunum við Helgafell.
Renāte er gift Sandris sem vinnur við smíðar á seiðastöðinni. Saman eiga þau drengina Deivids sem er í 6. bekk og Endijs sem var að byrja í 3. bekk. Fjölskyldan flutti til landsins milli jóla og nýárs og á Kirkjuveginn í Eyjum í byrjun febrúar. „Áður en við fluttum hingað þá hafði ég heimsótt manninn minn og líkaði mjög vel við mig. Fjöllin, fossarnir, norðurljósin og þessi náttúra er hreint stórbrotin. Um tíma bjuggum við á Tálknafirði og ég vann þar í einhverja þrjá mánuði. Þar var ég líka að vinna við þrif á svipuðum gámahúsum.”
Hún segir notalegt að búa í Eyjum og íbúana hafa tekið vel á móti þeim. Þá séu aukin lífsgæði fólgin í því að losna við bílaumferðina og verandi umkringd náttúru. „Síðan eru mun betri möguleikar hér upp á framtíðina að gera fyrir barnafjölskyldur miðað við í Lettlandi. Strákarnir kunna vel við sig í skólanum og þegar börnin eru ánægð þá eru foreldrarnir það líka.”
Yndislegt að vera orðinn hluti af samfélaginu
Christopher Sørensen, framkvæmdastjóri Plast Solutions ApS.
Christopher Sørensen er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Plast Solutions ApS í Danmörku sem framleiðir allar gerðir plasts fyrir fiskeldi, lífgas og iðnað. Þá sérhæfa þau sig í uppsetningu á tæknilögnum og fiskeldiskerfum eins og þess sem unnið er að fyrir ILFS. Áhersla er lögð á sjálfbærni og umhverfisvænar lausnir. „Þannig að við erum hér til að aðstoða við byggingu og uppsetningu núverandi verkefna og meðal annars að sjóða saman alls konar plasteiningar.”
Plast Solutions var stofnað árið 2018 eftir að Christopher hafði tekið eftir vaxandi þörf fyrir fiskeldisframkvæmdir og vildi bjóða upp á sérhæfðari lausnir fyrir atvinnugreinina. Í dag eru nokkrir hluthafar í félaginu og eru starfsmenn orðnir fimmtíu talsins.
„Við mættum hingað í byrjun maí og það hefur verið algjörlega frábært að koma til Íslands. Við höfum aðallega verið að vinna út í Noregi þannig að þetta er svolítið öðruvísi og þessi eyja sérstaklega, hún er alveg einstök. Við höfum verið hérna í teymum til skiptis. Hvert teymi er hér í þrjár til fjórar vikur að vinna og fer svo heim í tvær vikur” segir Christopher.
Christopher býr í búðunum við Helgafell og segir aðstöðuna þar góða. Hann er nýmættur aftur til Vestmannaeyja eftir að hafa verið í Esbjerg á suðvestur Jótlandi þar sem eiginkona hans og dóttir þeirra eru búsett. Fjölskyldan á svo eftir að sameinast á ný þegar mæðgurnar flytja til Eyja í byrjun október. „Það er yndislegt að vera orðinn hluti af þessu litla eyjasamfélagi og okkur hlakkar til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér” segir Christopher að síðustu.
Við erum ekki að vinna í ballett
Inn í botni er hægt að rekast á vinina Krystian Czepiél og Piotr Maolzik frá Póllandi. Krystian er 35 ára verkstjóri við seiðastöðina og hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2017. Hann kom til Vestmannaeyja í byrjun árs og býr í búðunum við Helgafell. „Það er mjög fínt að búa þar og maður kynnist fólki frá öllum heimshornum. Það getur samt stundum verið erfitt að búa með svona mörgum karlmönnum sem þurfa oft að losa um streitu og fá einhvers konar útrás. Síðan eru kannski sumir kvarta undan hvor öðrum en svona er þetta, við erum ekki að vinna í ballett.”
Geturu séð fyrir þér að eiga heima hérna í framtíðinni? „Ég get því miður ekkert sagt um það núna. Ég þarf bara að elta verkefnin. Ég verð örugglega hérna í einhver þrjú til fjögur ár þar til við erum búin með seinni hlutann austur í fjöru og svo sjáum við bara til hvað gerist. Ég væri alveg til í að eignast fjölskyldu hérna en eftir þetta verkefni þá þarf ég ef til vill bara að elta það næsta,” segir Krystian en hann er mjög ánægður á Íslandi og þá sérstaklega ánægður með veðurfarið. „Það er aldrei of heitt né of kalt. Þetta er bara akkúrat eins og það á að vera. Síðan er ég líka mikið fyrir rok þannig að þetta er bara fullkomið.”
Ætlar að deyja hérna
Piotr, eða Pétur eins og hann er kallaður á íslensku, er smiður frá Kraká og hefur búið á Íslandi í að verða tvo áratugi. Hann er orðinn nokkuð sleipur í að tala íslensku og hefur verið að mæta á íslenskunámskeið. Hann leigir einbýlishús í Eyjum og fær fjölskylduna í heimsókn til sín í næstu viku. „Ég ætla að deyja hérna” segir hann staðfastur er spurður hvort hann ætli að búa á Íslandi í framtíðinni.
Krystian Czepiél og Piotr Maolzik.
Borðtennisborðið er einkar vinsælt meðal íbúa hótelsins.
Í þessari íbúð er allt til alls.
Greinina má einnig lesa í 18. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst