„Þegar ég sýndi hérna fyrir fimm árum var ég ekki með eins stóra sýningu og núna. Hér er ég vegna orða Kára Bjarnasonar, forstöðumanns Safnahúss sem skoraði á mig að koma á fimmtíu ára goslokaafmælinu. Mér leist ekki á, átti ekki mikið af myndum, ákvað að slá til og fór að vinna. Hef hamast í þessu í fimm ár og hér árangurinn af því,“ sagði GZERO, Gerður Guðríður Sigurðardóttir þegar hún opnaði sýningu sína í Einarsstofu Safnhúsi í fyrradag. Fjölmenni var við opnunina, heimamenn og brottfluttir.
Gerður sýnir fjölda málverka sem eiga tilvísun í Vestmannaeyjar og Heimaeyjargosið 1973. Og myndirnar segja sögur. M.a. mynd af húsunum á Skansinum sem hurfu undir hraun sem Gerður málar eins hún man þau. Jarðhræringar við Keili urðu henni yrkisefni þar sem hún setti inn tvo hrafna. Sjálf bjó hún á Gerðisbraut 10 með fjölskyldu sinni þegar gosið hófst. Þá gekk hún með Bjarka, son hennar og Guðna Ólafssonar, eiginmanns hennar sem er látinn.
„Tveir hrafnar höfðu gert sér laup í Helgafelli og í hvert skipti sem ég fór út um haustið stungu þeir sér að mér eins og þeir væru að reka mig í burtu. Dag eftir dag og ég hugsaði, þetta veit á eitthvað. Var drulluhrædd en Guðni var alltaf á sjó. Ég lét ekkert stoppa mig en þeir hurfu svo í desember,“ sagði Gerður og þann 23. Janúar 1973 byrjaði að gjósa rétt fyrir austan húsið sem þau yfirgáfu með öllu sem í því var. Og nú vitum við hvað er að gerast á Reykjanesskaganum.
Myndir Gerðar eru fallegar og um margt athyglisverðar og því hægt að mæla með henni. Þess virði að kíkja inn.
Gerðisbraut 10 var grafin upp og er miðpunktur Eldheima.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst