Rannsókn Lögreglunnar í Vestmannaeyjum á hrottafenginni nauðgun og líkamsárás í bænum fyrir ári er nú á lokastigi. Konan fór úr landi fljótlega eftir að hún varð fyrir árásinni og hefur dvalið þar síðan. Lögreglu hefur reynst erfitt að ná tali af henni en í sumar fóru lögreglumenn utan til að taka skýrslu af henni og þar með var stórt skref stigið í átt að lokum rannsóknarinnar.
www.ruv.is greindi frá.
Málið hófst aðfaranótt 17. september í fyrra þegar kona á fimmtugsaldri fannst meðvitundarlítil í húsgarði í bænum. Maður á þrítugsaldri var handtekinn skömmu síðar grunaður um að hafa beitt konuna hrottalegu ofbeldi og nauðgað henni.
Maðurinn sat um skeið í gæsluvarðhaldi vegna málsins uns kröfu lögreglu um framlengingu þess var hafnað af dómstólum. Árásin var mjög alvarleg. Konan var flutt þungt haldin með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Hún var svo bólgin í andliti að hún gat ekki opnað augun og líkamshiti hennar var 35,5 gráður þegar að henni var komið. Lögregla telur að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði það getað orðið henni að fjörtjóni.
Lögregla er nú að vinna úr síðustu gögnum sem borist hafa, meðal annars matsgerðum sérfræðinga, áður en málið fer í ákæruferli.