Mannskapurinn mætti til skips sunnudaginn 3. janúar og var í plönunum að fara á gulldepluveiðar. Byrjað var strax á að græja skipið á trollið, hífa hlera um borð og taka snurpuvírinn af spilunum o.fl. Þessi vinnan kláraðist á mánudagskvöldið og var farið á sjó upp úr sjö um kvöldið og stefnan tekin á miðin. En hvaða mið….. Ekki var mikill árangur hjá skipunum á gulldeplunni og nokkur hundruð tonn af síld var enn þá til hjá fyrirtækinu sem átti að taka þegar aðeins leið á mánuðinn. En ákvörðun var tekin um að veiða þessi tonn núna því ástandið var ekki spennandi á gulldeplunni. Við græjuðum því skipið á nótaveiðar á nýjan leik strax um kvöldið sem farið var út.