Viðgerð Landsnets á Vestmannaeyjastreng 3 (VM3) til Vestmannaeyja lauk í byrjun ágúst, eftir að bilun kom upp í strengnum í janúar á þessu ári. Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets sagði í samtali við Eyjafréttir viðgerðina hafa gengið vel.
Fram hefur komið að Landsnet vinnur áfram að undirbúningi að lagningu nýrra sæstrengja til Vestmannaeyja til þess að efla og tryggja afhendingaröryggi enn frekar til framtíðar. Steinunn segir þá vinnu í farvegi. „Við erum í góðri samvinnu við skipulagsaðila í Vestmannaeyjum og Rangárþingi Ytra varðandi lagnaleiðir og ætti niðurstaða að liggja fyrir á næstu vikum. Forval vegna útboðs á sæstreng verður opnað í september. Unnið er að hönnun og gerð útboðsgagna vegna lagningu jarðstrengja. Hönnun rafbúnaðar í tengivirkjum í Vestmannaeyjum og Rimakoti er á áætlun og stefnt að útboði á haustmánuðum. Það er mikið álag hjá öllum framleiðendum sæstrengja og hjá fyrirtækjum með skip til lagningu strengja. Það mun skýrast á næstu þremur mánuðum hvernær við getum hafist handa við að leggja strengina,“ sagði Steinunn.
Nánar er rætt við Steinunni um málið í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst