Oddgeir Ágúst Ottesen, Hvergerðingur og hagfræðingur býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjör sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þann 10. september næstkomandi. Oddgeir tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins árið 2013 og hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili og tekið þrívegis í skamman tíma sæti á Alþingi.
Oddgeir er sjálfstæður atvinnurekandi sem rekur ráðgjafafyrirtækið Integra ráðgjöf sem veitt hefur ráðgjafaþjónustu á sviði hagfræði og fjármála. Auk þess hefur Oddgeir sinnt stundarkennslu við Háskólann í Reykjavík. Oddgeir situr í stjórn Íslenskra Verðbréfa og hefur setið í stjórn efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins.
Oddgeir berst fyrir framgangi sjálfstæðisstefnunar með heiðarleika og fagmennsku að leiðarljósi. Markmið Oddgeirs er að vinna að bættum lífskjörum íbúa Suðurkjördæmis og landsins alls. Oddgeir leggur auk þess áherslu á að beita sér fyrir skilvirku viðskiptaumhverfi, ráðdeild í ríkisrekstri og lægri sköttum. Oddgeir beitir sér fyrir lægri tekjuskatt einstaklinga og lægra tryggingagjaldi. Skýrar leikreglur og hagkvæmt viðskiptaumhverfi er best til þess fallið að auka nýsköpun og hagkvæmni í bæði hefðbundnum og nýjum atvinnugreinum.
Gæta þarf þess að opinberar stofnanir og stjórnvöld gangi ekki gegn sóknaráætlun stjórnvalda fyrir landsfjórðunga með flutningu starfa úr kjördæminu til höfuðborgarsvæðisins. Mikil aukning ferðamanna og sérstaða byggða í Suðurkjördæmi gerir það brýnt að styrkja innviði svæðisins til að auka öryggi og velferð íbúa þess.
Oddgeir Ágúst Ottesen