Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs var samþykkt að stytta Hörgaeyrargarð, nyrðri hafnargarðinn um allt að 90 metra. Með því fæst meira pláss til að taka inn skip og auðvelda innsiglingu þeirra.. Vestmannaeyjahöfn fékk Vegagerðina til að kanna hvaða möguleikar væru innan hafnar varðandi snúning á stærri skipum. Með því að breikka innsiglingarennuna mun það auðvelda innsiglingu stærri skipa og taka af krappa beygju við enda garðsins. Stytting garðsins mun auðvelda það að bakka inn skipum sem verður þá snúið inn í Klettsvík. Þessi framkvæmd mun verða til þess að hægt verður að taka inn hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem í dag liggja hér fyrir utan. Samhliða þessari framvkæmd verður dýpkað niður í 9 metra við garðinn.
Vegagerðin nýtti líkön til að sjá hvaða áhrif það hefur á sog- og ölduhreyfingar innan hafnar sem og vindöldu að stytta garðinn. Þrír kostir voru skoðaðir sem voru 50 m, 70 m stytting sem og að taka garðinn alveg. Niðurstöður Vegagerðarinnar eru þær að stytting garðsins hafi lítil áhrif á þá skjólgóðu höfn sem við eigum. „Stytting Hörgaeyrargarðs eða að fjarlægja hann hefur óveruleg áhrif á vindöldu innan hafnar og greining bendir ekki til neikvæðra áhrifa á soghreyfingu, frekar jákvæðra áhrifa. Hlutfallsleg hækkun öldu við kanta er hins vegar töluverð, en kyrrð í núverandi höfn leyfir þessa hækkun án þess að skipahreyfingar fari yfir viðlegu- og löndunarskilyrði í samanburði við aðrar hafnir,“ segir í skýrslunni sem er finna í fundargerð ráðsins frá fimmta júlí sl.
Stærstu gámaskipin sem sigla reglulega til Vestmannaeyja í dag eru 137,5m löng og rista 8,5 metra. Aðstæður eru studnum erfiðar í miklum vindi og í örfáum tilfellum þurfa gámaskipin frá að hverfa. . Samkvæmt staðalkröfum Vegagerðarinnar þarf snúningsrými að vera 1,5 skipslengdir eða um 206 m fyrir þessi skip. Næsta kynslóð flutningaskipa verður að öllum líkindum stærri og reyndar eru nýjustu skip Eimskipa orðin allt að 180 m löng. Því er verið að skoða leiðir til að gera stærri skipum kleift að nota höfnina.
Á sama fundi kom fram að fara á í frekari greiningar á þörf samfélagins á stórskipakanti. Þannig að ráðið er ekki að horfa til þess að stytting Hörgaeyrargarðs sé sú varanlega lausn sem samfélagið okkar þarf.
Mynd Addi í London: Í sumar hefur ekki liðið sá dagur að eitt eða fleiri skemmtiferðaskip komi til hafnar í Eyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst