Á þeim 50 árum sem Fréttir og síðar Eyjafréttir hafa starfað hafa bæði verið jákvæðar fréttir og neikvæðar í atvinnulífinu. Á stað þar sem sjávarútvegurinn skiptir öllu máli hafa skipst á skin og skúrir. Fyrirtækin í Eyjum sameinuðust í mikilli sameiningarhrinu áramótin 1991-1992, eftir erfið ár á níunda áratugnum. Sameiningar voru viðbrögð við samdrætti í veiðum, miklum skuldum og erfiðum rekstrarskilyrðum. Áttu mörg fyrirtæki á landsbyggðinni eftir að fara í gjaldþrot eða vera seld fyrir lítið af þessum ástæðum, Einar Guðfinnsson á Bolungarvík var líklega þeirra þekktast. Ísfélag Vestmannaeyja sameinaðist Hraðfrystistöðinni undir forystu Sigurðar Einarssonar, forstjóra Hraðfrystistöðvarinnar. Sameinað félag fékk nafnið Ísfélag Vestmannaeyja, en félagið er elsta starfandi hlutafélag landsins.
Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar. Ísfélagið sameinaðist Ramma á síðasta ári og samhliða því ákváðu eigendur að skrá sameinað félag í Kauphöllina. Í vor tók Einar Sigurðsson við stjórnarformennsku í Ísfélaginu, og því tilefni til að setjast niður með honum og fara yfir farinn veg og framtíðina. Fjölskylda Einars er kjölfestuhluthafi í sameinuðu félagi en faðir hans, Sigurður Einarsson, rak félagið fram að ótímabæru andláti árið 2000.
Ekki er úr vegi að byrja að spyrja aðeins um söguna og stöðuna í dag, átti Einar von á því að félagið yrði eins og það er í dag þegar hann var að alast upp?
Nei, í sjálfu sér ekki. Ég held að okkur hafi borið gæfa til að reyna að gera eins vel og við getum með það sem við höfum haft hverju sinni. Ég man alveg þá tíð, þó ég vilji meina að ég sé enn ungur, að deilt var um hvernig ætti að bjarga sjávarútveginum en þær deilur ná alveg fram á 10. áratuginn. Ætli erfiðustu árin hafi ekki verið árin í kringum 1990 og upp úr því. Árið 2000 var okkur einstaklega erfitt af mörgum ástæðum en þá, eins og svo oft, náðum við að sigla í gegnum þá erfiðleika sem að okkur hafa steðjað.
Hvað varðar stöðu félagsins í dag í samanburði við fortíðina þá erum við enn þá að gera það sama, nema við höfum stækkað og fjárfest gríðarlega. Til að standa undir miklum fjárfestingum skiptir máli að vera með öfluga kvótastöðu. Það sem hefur komið einna mest á óvart eru hversu tæknilegur sjávarútvegur er orðinn, hvort sem er á hafi úti eða í landi. Það kostar töluverða fjármuni að halda í við þá þróun og því mikilvægt að félögin séu fjárhagslega sterk. Það skiptir líka máli að fylgjast vel með þróuninni og læra af öðrum. Við höfum haft afskaplega gott starfsfólk og stjórnendur og það skiptir öllu máli.
Hvers vegna sameining við Ramma og svo skráning á markað ?
Við sáum tækifæri í því fyrir bæði félög. Rammi er vel rekið fyrirtæki með öfluga hlutahafa og ég tel að það sama eigi við Ísfélagið. Ég er auðvitað eins og bræður mínir, alinn upp í fjölskyldufyrirtæki þannig auðvitað eru þetta viðbrigði. Ég held þó að þessi ágætu félög hafi sameinað það besta úr hvoru tveggja, það eru stórir og sterkir hluthafar með rætur í sjávarútvegi. Síðan bætast við öflugustu fjárfestar landsins með skráningu á markað, sem felur líka í sér tækifæri fyrir fólk til að taka þátt um leið og greinin verður opnari og gegnsæi meira. Ég reikna með því að við nýtum markaðinn til frekari stækkunar í framtíðinni.
Ertu bjartsýnn á framtíð sjávarútvegsins?
Já, ég er það. Það er engin spurning í mínum huga að við Íslendingar erum að selja gæðavöru og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru í fremstu röð. Ég veit ekki hvað er búið að búa til margar skýrslur til að fara yfir íslenskan sjávarútveg og stöðuna á honum. Nú síðast fyrir tæpu ári í Auðlindinni okkar. Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu, að sjávarútvegur stendur vel og ein megin ástæða þess er núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Sama hvað menn vilja segja, þó fór sjávarútvegur úr því að vera illa stödd atvinnugrein í það sem við þekkjum í dag. Það tók auðvitað langan tíma og var ekki sársaukalaust, þvert á móti. Árangur sem tók langan tíma að ná.
Eitt af því sem er mjög vanmetið í þeirri þróun er það gríðarlega markaðsstarf sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa byggt upp á liðnum árum. Annað er gæfa okkar Íslendinga að tvinna saman veiðar og vinnslu. Það sést vel þegar skoðað er hversu hátt hlutfall af þorski sem veiddur er við Ísland er unninn hér saman borið við Noreg. Þar höfum við vinninginn. Það var bara eitt sem kom mér á óvart í niðurstöðu skýrslunnar um Auðlindina okkar. Það var sú algjöra falleinkunn sem strandveiðar fengu. Þær komu verr út en ég hélt og bjóst ég ekki við miklu. Það ætti líklega ekki að koma á óvart, en ég held að færi mun betur á því að nýta þessar heimildir innan núverandi kerfis til að styrkja ákveðin svæði með heilsárs störfum, frekar en fjölga sumarstörfum.
Það er mikilvægt að stjórnmálamenn verji það sem vel hefur gengið og haldi áfram á sömu braut. Það kallar á skilning en um leið umræðu sem byggir á staðreyndum. Það er öllum atvinnugreinum erfitt að umræða um þær séu staðreyndalausar og byggi á frösum og þvælu, hvort sem það er fiskeldi, sjávarútvegur, orkuframleiðsla eða eitthvað annað. Að einhverju leyti skrifast þetta á okkur sem störfum í greinunum, að taka ekki frekari þátt í þjóðfélagsumræðunni. Það þarf og er hlutverk stjórnmálamanna, fyrirtækja og þeirra sem þar starfa auk hagsmunasamtaka að tala fyrir verðmætasköpun í landinu þannig að allir skilji. Það verður aldrei byggt upp öflugt þjóðfélag ef atvinnulífið er ekki kraftmikið.
Áttu von á frekari sameiningum í sjávarútvegi?
Já, tvímælalaust. Ég hugsa að margir átti sig ekki á hversu hörð samkeppni er um neytendur alls staðar í heiminum. Ekki bara að koma gæðavöru eins og íslenskum fiski á markað heldur líka að vera samkeppnisfær í verði. Fyrirtækin, sem eru agnarsmá í alþjóðlegu samhengi, þurfa að stækka þar sem allar fjárfestingar eru stórar, hvort sem horft á skipaflotann eða vinnslu í landi. Það sjá allir, t.d. þegar horft er á glæsilegt frystihús Samherja á Dalvík eða uppsjávarfrystihús Eskju á Eskifirði. Það kostar gríðarlega fjármuni að byggja svona upp og það þarf bæði sterk félög og stöðuleika til að standa undir slíku. Ísfélagið er líka að fjárfesta talsvert. Nýr togari, Sigurbjörgin, er í smíðum í Tyrklandi er væntanleg fljótlega og svo keyptum við uppsjávarskipið Pathway frá Skotlandi sem kemur eftir eitt ár. Við höfum líka fjárfest hér í Eyjum og erum að auka afkastagetu okkar á Þórshöfn, m.a. með stækkun á frystiklefa.
Hvernig líst þér á stöðuna í atvinnulífinu í Eyjum?
Það gengur ágætlega hér í Eyjum. Ferðaþjónustan er kraftmikil og mun bara stækka. Það kæmi mér ekki á óvart ef hótelum myndi fjölga hérna. Ef við lítum til baka líkt og við spjölluðum um í byrjun þá hefur gengið á ýmsu. Ég held að það hafi ekki verið sjálfgefið að hér væru tvö af tíu af stærstu fyrirtækjum landsins í sjávarútvegi, miðað við stöðuna í kringum 1990. Nú fyrir stuttu voru fulltrúar erlendra banka í heimsókn í Eyjum. Annar frá Noregi og hinn evrópskur. Ísfélagið er í viðskiptum við annan þessara banka. Hinn hafði mikinn áhuga á fyrirtækjum í Vestmannaeyjum. Þetta eru bankar sem eru að lána stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heiminum. Það er viðurkenning fyrir okkur sá áhugi sem þeir sýna okkur. Það er gaman að sjá kraftinn í Laxey og fróðlegt að sjá hverjir fjárfestu í útboðinu þeirra. Niðurstaðan af því sýndi mikinn styrk.
Það eru kannski smáatriði sem ég er aðeins hugsi yfir. Umræður um höfnina eru mjög skrítnar og allir horfa á stórskipahöfn fyrir utan Eiðið. Það er í mínum huga fullkomlega óraunhæf hugmynd enda mjög kostnaðarsöm. Stóru skipafélögin eru að stækka skipin og það vinnur ekki með okkur. Það að taka af Hörgeyrargarðinum er augljóst og mér finnst mjög sérstakt hvað einstaka sjálfskipaðir spekingar eyða miklu púðri að rífast um einhverja metra til eða frá. Það er borðleggjandi að taka sem mest af garðinum. Ég held að framtíðin kalli svo á lengingu hafnarinnar í átt að Löngu. Höfnin er og verður lífæð okkar og hún þarf að þróast í takt við annað í atvinnulífinu.
Yfirhöfuð er ég bjartsýnn á atvinnulífið í Eyjum enda mikið að gerast. Auðvitað munu koma lægðir og breytingar en í heildina mun ganga vel.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst