Vélaverkstæðið Þór var stofnað þann 1.nóvember 1964 í Vestmannaeyjum. Í gær var haldið upp á 60 ára afmæli fyrirtækisins og var boðið til afmælisfögnuðar í golfskálanum. Eigendur Þórs létu ekki þar við sitja heldur gáfu þeir hjálparstarfi Landakirkju eina milljón króna á þessum tímamótum.
Stofnendur Þórs voru þeir Garðar Þ. Gíslason, Hjálmar Jónsson og Stefán Ólafsson. Hjálmar snéri ekki til Eyja eftir eldgosið í Heimaey árið 1973 og seldi því sinn hlut. Stefán lét af störfum og seldi sinn hlut árið 1999. Árið 2000 breyttist eigendahópurinn þegar nokkrir af starfsmönnum fyrirtækisins keyptu sig inn í fyrirtækið. Voru eigendurnir þá eftirfarandi: Garðar Gíslason, Svavar Garðarsson, Jósúa Steinar Óskarsson, Friðrik Gíslason og Garðar R. Garðarsson sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra.
Árið 2019 urðu miklar breytingar á eigendahópnum þegar Askja properties ehf. í eigu Daða Pálssonar og Vélsmiðjan Völundur ehf. í eigu Hallgríms Tryggvasonar, Ásdísar Sævaldsdóttur og barna þeirra keyptu alla hluti í fyrirækinu. Í kjölfarið urðu breytingar þar sem Sævald Páll Hallgrímsson var ráðinn framkvæmdastjóri og Halla Björk Hallgrímsdóttir var ráðin fjármálastjóri. Seinna sama ár keyptu tveir starfsmenn sig inn í fyrirtækið, þeir Haraldur Guðbrandsson og Gústaf Adolf Gústafsson verkstjórar.
Vélaverkstæðið Þór er meðal elstu fyrirtækja landsins sem þjónustað hefur sjávarútveg og fiskvinnslur. Fyrirtækið er mjög vel tækjum búið og hefur tölvustýrðum vélum fjölgað í takt við þróun slíkra tækja. Meðal þeirra tækja er öflug vatnskurðarvél sem eykur möguleika fyrir hinn almenna borgara að nota þjónustuna t.d. við skurð á flísum og að láta útbúa allskyns merki og skraut skorið út úr ryðfríu stáli eða hvaða efni sem er.
Myndasyrpu frá afmælisfögnuðinum má sjá hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst