Eins og títt kom fram í fréttum á Radarnum á árinu 2020, þá fór sjávarútvegur ekki varhluta af ástandinu í heimsbúskapnum vegna COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða. Í heildina litið var ástandið þó bærilegra en í mörgum öðrum atvinnugreinum. Í því samhengi hefur það vissulega áhrif að fólk þarf að borða, sama hvernig allt í veröldinni veltist. Það er þó fjarri því sjálfgefið að hægt sé að veiða og koma afurðum á markað og selja í árferði sem þessu, til þess þarf þekkingu, þrautseigju og áræðni. Þegar litið er á tölur fyrir árið í heild má segja að vel hafi tekist til í sjávarútvegi á árinu 2020. Jafnframt varð útkoman margfalt betri en á horfðist í fyrstu þegar faraldurinn skall á. Er nærtækast að nefna að í fyrstu hagspám sem birtar voru eftir að faraldurinn skall á, var gert ráð fyrir einum mesta samdrætti í sjávarútvegi sem orðið hefur í nær fjóra áratugi á árinu 2020. Sú varð ekki raunin, sem betur fer!
Aukning í krónum, samdráttur í erlendri mynt
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 270 milljörðum króna á árinu 2020 og jókst um 10 milljarða frá fyrra ári. Jafngildir það aukningu upp á tæp 4% í krónum talið. Aukningin skrifast öll á þá lækkun sem varð á gengi krónunnar, enda dróst útflutningsverðmæti sjávarafurða saman um tæp 7% í erlendri mynt. Samdráttinn má helst rekja til rúmlega 4% samdráttar í útfluttu magni. Þar spilar COVID-19 að sjálfsögðu hlutverk, en erfitt er að festa fingur nákvæmlega á hversu mikil þau áhrif voru. Áhrifin af loðnubresti voru þó talsverð, sem kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir þar sem loðnubrestur varð annað árið í röð. Ástæða þess er að talsvert hafði verið um birgðasölu á árinu 2019, sér í lagi á frystum loðnuhrognum sem er verðmæt afurð.
Aðstæður á mörkuðum versnuðu til muna á árinu 2020 vegna COVID-19 og var verð á sjávarafurðum að jafnaði ríflega 2% lægra á árinu 2020 en 2019, mælt í erlendri mynt. Sú lækkun er vissulega ekki ýkja mikil þegar litið er á árið í heild, en áður en COVID-19 skall á hafði verið talsverð verðhækkun sem hefur áhrif á meðalverð á árinu. Sveiflur innan ársins voru því mun meiri og er hér nærtækast að nefna þá breytingu sem varð á árstakti verðvísitölu sjávarafurða sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Í janúar 2020 sýndi tólf mánaða taktur verðvísitölunnar tæplega 9% hækkun á sjávarafurðum í erlendri mynt, en í desember var hann komin niður í tæp 8% lækkun.
Nánar um þessar tölur og meira til má finna á mælaborði Radarsins um útflutning. Þar hafa allar tölur verið uppfærðar til ársins 2020, auk þess sem myndum hefur verið fjölgað, framsetning talna breyst og umfjöllun er ítarlegri en áður.
Fiskur drjúgur í útflutningstekjum
Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar námu útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta rétt rúmlega 1.000 milljörðum króna á árinu 2020. Það er um 33% samdráttur frá árinu 2019 á föstu gengi, en á þann kvarða hafa útflutningstekjur þjóðarbúsins ekki verið minni frá árinu 2013. Áhrifin af COVID-19 sjást hjá flestum útflutningsgreinum, en áhrifin voru vissulega mismikil eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.
Á undanförnum árum hafa sjávarafurðir vegið tæplega fimmtung af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum. Á árinu 2020 var vægi sjávarafurða í útflutningstekjum 27% og hefur það hlutfall ekki verið hærra frá árinu 2009. Þessi aukna hlutdeild er vissulega ekkert sérstakt fagnaðarefni enda kemur hún ekki til af góðu, einkum vegna verulegs samdráttar í tekjum annarra mikilvægra útflutningsgreina, sér í lagi ferðaþjónustu. Fiskeldi var ein fárra útflutningsgreina sem aflaði meiri gjaldeyristekna á árinu 2020 en 2019, eins og kom fram á Radarnum nýverið. Er því ljóst að fiskur var drjúgur í útflutningstölum ársins 2020, en samanlögð hlutdeild sjávar- og eldisafurða af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins var 30% á árinu 2020.
Sterkar stoðir
Reiknað var með 12% samdrætti í útflutningi á sjávarafurðum í fyrstu spám sem birtar voru eftir að faraldurinn skall á. Raunin varð rúmlega 4% samdráttur, eins og á undan greinir. Hefðu spár ræst, hefði útflutningsverðmæti sjávarafurða verið um 22 milljörðum króna minna á árinu 2020 en raunin varð, að öðru óbreyttu. Það munar um minna!
Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að sveigjanleiki íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og styrkur þess skipulags sem greinin býr við, skipti þar sköpum. Í því felst meðal annars:
Ofangreindir eiginleikar íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og staða fyrirtækja gegndi vafalaust sóru hlutverki í aðlögun sjávarútvegs að nýjum og krefjandi veruleika. Það hefur sjaldan verið mikilvægara fyrir þjóðarbúið en á hinu fordæmalausa ári 2020!
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst