„Við erum að klára síðasta farminn,“ sagði Anna Sigríður Hjaltadóttir, vinnslustjóri Vinnslustöðvarinnar þegar hún var spurð út í síldarvinnsluna en Vinnslustöðin var með fjögur þúsund tonn í heimasíldinni. „Vinnslan hefur gengið mjög vel, það hefur ekki farið mikið í beitu, mest flök og flaxar og allt fryst. „Við erum í bolfiski og erum að ganga frá frosnum humri og vonandi fáum við svo loðnu eftir áramótin. Við höfum verið að auka útflutning á ferskum afurðum í bolfiski og hann hefur verið að aukast frá viku til viku. Það er nóg að gera og verður ekki stoppað neitt nema rétt yfir hátíðirnar,“ sagði Anna Sigríður þegar rætt var við hana í dag.