Kvennalið ÍBV gerði vel í því að ná í stig gegn Stjörnunni í kvöld, eftir að hafa lent 0:2 undir í fyrri hálfleik. Leikur Eyjaliðsins var hreint út sagt hræðilegur í fyrri hálfleik og ljóst að ÍBV saknaði þeirra Vesna Smijlkovic og Elínborgar Jónsdóttur mikið, en báðar tóku þær út leikbann í kvöld. Síðari hálfleikur var hins vegar mun betri hjá ÍBV og Danka Podovac reyndist hetja ÍBV en hún skoraði bæði mörk ÍBV, fyrra markið úr víti en það síðara eftir glæsilega skyndisókn á 83. mínútu.