Um miðjan síðasta mánuð var sett af stað undirskriftasöfnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Eldfelli. Fram kemur að undirrituð mótmæli fyrirhugaðri röskun á ásýnd, og tilheyrandi kostnaði við gerð listaverks á Eldfelli.
Bjartey Hermannsdóttir er ábyrgðarmaður undirskriftalistans. Aðspurð um hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að hefja undirskriftasöfnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Eldfelli segir hún að hún hafi verið neikvæð gagnvart þessari framkvæmd frá því að hún heyrði um hana fyrst. „En það var svo þegar ég tók eftir umræðunni í kringum mig, að ég ákvað að gera undirskriftalistann.” segir hún í samtali við Eyjafréttir.
Nú þegar um einn og hálfur sólarhringur er eftir af söfnuninni hafa tæplega 500 skrifað undir. Er Bjartey er spurð hvort hún sé ánægð með þann fjölda undirskrifta svarar hún því játandi. „Já, nokkuð ánægð, enda bjóst ég ekki við svona góðum viðtökum.”
Hvaða áhyggjur hefur þú helst varðandi áformað listaverk á Eldfelli og hvernig telur þú að það geti haft áhrif á náttúruvernd?
Að mínu mati á Eldfell að fá að vera að mestu leyti ósnert! Enda er það í sjálfu sér listaverk og minnisvarði um þann stórmerkilega atburð sem varð til þess að það myndaðist. Að setja upplýst bílastæði og göngustíga til að einfalda aðgengi um fellið mun að sjálfsögðu auka ágang til muna með tilheyrandi raski og útlitsmengun. Ég tel það vera skref í ranga átt gagnvart stórbrotinni náttúru okkar hér í Eyjum að setja fordæmi fyrir leyfi fyrir svona umdeildri framkvæmd.
Talsverð leynd hefur ríkt yfir útliti verksins og eins yfir kostnaðinum við framkvæmdina. Hvað finnst þér um það?
Ég er gífurlega ósátt við það að vita ekki hvernig þetta mun líta út, enda list mjög afstæð, og því mikilvægt að vita hvað er verið að samþykkja.
Ég er ekki sátt við að Vestmannaeyjabær hafi samþykkt að standa straum af kostnaði sem falli til við gerð göngustíga og bílastæða m.a., auk þess að greiða listamanninum 50 milljónir. Þessir peningar koma úr sameiginlegum sjóðum okkar bæjarbúa og er ég og fleiri þeirra skoðunar að það hefði verið hægt að finna ótal margt annað sem þessum upphæðum hefði verið betur varið í.
Aðspurð um hver skoðun hennar sé á því að listaverk og náttúruvernd fari saman og hvort hægt sé að finna jafnvægi milli þeirra, svarar Bjartey því til að hún sé þeirra skoðunar að list eigi ekki heima mikið í náttúrunni, nema það fari voða lítið fyrir henni.
Nú eru einungis innan við tveir sólarhringar eftir af undirskriftasöfnuninni. Spurð um hver næstu skref verði í málinu, segir hún að listanum verði skilað inn til bæjarstjórnar og næstu skref verði þá hennar. „En vonin er sú að tekið verði mark á undirskriftum og þá boðað til íbúakosningar.”
Er eitthvað sem þú myndir vilja að bæjaryfirvöld eða aðrir sem taka ákvarðanir um þetta mál vissu þegar það kemur að þessari röskun?
Ég hef enga meiri vitneskju eða innsýn en þau, en ég vona að þau hlusti á raddir bæjarbúa og setji þetta í hendur okkar, enda er það það eina rétta í svona stórri og óafturkræfri framkvæmd, segir Bjartey að lokum. Hér má kynna sér undirskriftasöfnunina. Henni lýkur á miðnætti á morgun, miðvikudag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst