Sjómannadagurinn skipar stóran sess í menningarlífi eyjamanna. Metnaðarfull dagskrá var í boði alla helgina og er það Sjómannadagsráð sem fer með skipulagningu hennar. Formaður ráðsins er Gísli Matthías Sigmarsson og er hann því Eyjamaður vikunnar.
Fullt nafn: Gísli Matthías Sigmarsson.
Fjölskylda: Ég er sonur Sigmars Gísla og Ástu Kristmannsdóttur. Systir mín heitir Ágústa Dröfn og bróðir Sæþór Birgir og svo er ég trúlofaður apótekaranum Barboru.
Hefur þú búið annarsstaðar en í Eyjum: Nei fyrir utan stutt stopp í Vélskólanum í Reykjavík.
Mottó: Ef maður gerir aldrei neitt þá gerist aldrei neitt.
Síðasta hámhorfið: Brigands The Quest For Gold.
Uppáhalds hlaðvarp: Vera Illugadóttir.
Uppáhalds kvikmynd: Dettur ekkert í hug.
Aðaláhugamál: Ég hef gaman af útivist, ferðalögum og að kafa. svo er ég alltaf eitthvað að brasa í bílskúrnum.
Hver er þinn helsti kostur: úff..
Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án:
Náðarstundar á salerninu.
Hvað óttast þú mest: Að vera valinn Eyjamaður vikunnar.
Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Bob Dylan, Johnny Cash, Creedence, Sigurður Guðmunds og Memfismafían koma fyrst upp í hugann. Frábær platan, Okkar menn í Havana, með Sigurði Guðmundssyni.
Hvaða ráð myndir þú gefa 18 ára þér sem veganesti inn í lífið: Það er enginn að pæla í hvað þú ert að gera nema þú sjálfur.
Hvað er velgengni fyrir þér: Ætli það sé ekki bara að vera ánægður með það sem þú ert að gera og hefur gert. Allavega ekkert veraldlegt.
Hvar sérðu sjálfan þig eftir 20 ár: Ég sé nú ekki einu sinni fyrir mér hvar ég verð á morgun.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Galapagos eyjar, Kúba og Amazon frumskógurinn, samt líður mér alltaf best úti í Suðurey.
Nú ertu nýbúinn að skipta um starf, hvernig kanntu við þig á Herjólfi: Mjög vel, það er frábær mórall þarna um borð.
Er það starf frábrugðið því sem þú sinntir áður á Breka VE: Já þetta er svolítið frábrugðið því að vera á togara en þó er margt keimlíkt.
Hvað ertu búinn að vera lengi í Sjómannadagsráði: Það eru einhver 7 ár giska ég.
Hvernig er undirbúningur búinn að ganga: Undirbúningur er búinn að ganga mjög vel, við erum ávallt með flottan hóp duglegra manna í Sjómannadagsráði og góða styrktaraðila sem koma að deginum með okkur. Það er mikil vinna lögð í sjómannadaginn ár hvert og margra vikna undirbúningur og útréttingar. En þetta er alltaf virkilega skemmtilegt.
Hvað verður í boði um helgina: Við erum með að ég tel eina flottustu dagskrá á landinu um sjómannadagshelgina og við reynum að toppa á hverju ári.
Á fimmtudaginn er sjómannameistarinn í pílu og sjómannabjórinn kynntur við hátíðlega athöfn á Brothers Brewery.
Á föstudaginn er sjómannagolfmót Ísfélagsins og Ný Dönsk upp í höll.
Á laugardaginn gerum við góðan dag fyrir krakkana. Þar er Dorgveiðikeppni Sjóve og Jötuns, svo er fjör á Vigtartorgi, Hoppukastalar, koddaslagur, kappróður, blaðrarinn mætir, ÍBV gefur poppkorn og Kjörís gefur ís. Svo verður Bylgjuhraðlestin með okkur í ár ásamt matarvögnum.
Á sunnudaginn fögnum við svo saman á Stakkagerðistúni eftir sjómannamessu. Þar heiðrum við sjómenn og minnumst þeirra sem hafa fallið frá, lúðrasveit og karlakórinn taka nokkur lög. Það er kaffi á vegum Eykyndils í Akóges ásamt flottri afþreyingu fyrir börnin á Stakkó.
Eitthvað að lokum: Fjölmennum á dagskránna um helgina og tökum þátt. Sjómannadagurinn hefur mikla þýðingu í menningu og samfélagi Vestmannaeyja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst