„Gísli Valtýsson er Eyjamaður ársins 2024 að mati Eyjafrétta. Er lærður smiður og prentari og tók við rekstri Eyjaprents/Eyjasýnar árið 1982 sem hann stýrði í rúm 30 ár. Stærsta verkefnið var útgáfa Frétta og síðar Eyjafrétta sem í áratugi kom út einu sinni í viku. Það var þrekvirki og vinnutíminn oft langur en allt hafðist þetta. Gísli þó alltaf til í að fara inn á nýjar brautir. Má þar nefna sjónvarpsstöðina Fjölsýn sem framleiddi eigið efni og fréttavefinn eyjafrettir.is,“ sagði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta við afhendingu Fréttapýramídanna í Eldheimum í dag.
„Ýmislegt hefur breyst, sjónvarpsstöðin ekki lengur til, Eyjafréttir koma út einu sinni í mánuði en fréttavefurinn okkar, eyjafrettir.is hefur aldrei verið öflugri. Er það í takt við nýja tíma.
Eyjasýn fagnaði 50 ára afmæli á síðasta ári og eru Eyjafréttir með langelstu fjölmiðlum á landsbyggðinni. Þar hefur saga Vestmannaeyja verið sögð á þúsundum síðna, í hundruðum og jafnvel þúsundum klukkustunda af sjónvarpsefni og á vefsíðunni eyjafréttir.is sem aldrei sofa.
Eyjamaður af lífi og sál
Þetta er arfleið Gísla sem er Eyjamaður af lífi og sál. Hefur frá 10 ára aldri komið að félagastarfsemi. Fyrst stofnaði hann frímerkjaklúbb, gekk í Skátafélagið Faxasem, þá tók Íþróttafélagið Þór við og ÍBV – íþróttabandalag þar sem hann er enn féhirðir Þjóðhátíðar. Hefur hann hlotið allar helstu heiðursviðurkenningar íþróttahreyfingarinnar. Gullmerki Íþróttafélagsins Þórs, silfurmerki HSÍ, gullkross Íþróttabandalags Vestmannaeyja sem er æðsta heiðursmerki bandalagsins og gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Í 20 ár var hann í Kiwanisklúbbnum Helgafelli, forseti um tíma og svæðisstjóri á Suðurlandi. Nú er það Félag eldri borgara sem nýtur krafta hans. Þar situr hann í stjórn sem gjaldkeri.
Gísli hefur svo sannarlega lagt Vestmannaeyjum margt gott til án þess að vera í framlínunni. Lætur vel að vera á bak við tjöldin. En alltaf traustur bakhjarl.
Hvað mig sjálfan varðar, vil ég þakka Gísla fyrir samstarf sem stóð í 30 ár. Oft vorum við með vindinn í fangið en áfram var haldið og okkar á milli myndaðist traust og vinátta sem stendur upp úr þegar litið er til baka,“ sagði Ómar og óskaði eiginkonu Gísla, Hönnu Þórðardóttur sem staðið hefur þétt við bakið á sínum manni og dætrunum, Erlu, Hrund og Þóru til hamingju með kallinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst