Undanfarin ár hefur Lífeyrissjóður Vestmannaeyja verið að skila góðri ávöxtun og hefur verið ofarlega í öllum samanburði. Sjóðurinn hefur verið með bestu raunávöxtun lífeyrissjóða horft til 5 og 10 ára meðaltals. Við erum stolt af þessum árangri og höfum fundið að sjóðfélagar hafa haldið tryggð við sjóðinn og greitt áfram í hann þegar þeir hafa fært sig milli sveitarfélaga og skipt um vinnu.
Lífeyrissjóður Vestmannaeyja var einn af fáum sjóðum sem þurfti ekki að grípa til skerðinga réttinda í kjölfar fjármálahrunsins 2008, þvert á móti þá hækkuðu réttindi sjóðfélaga um 10% áramótin 2023-2024.
Séreignarsamningur veitir þér 2% viðbótarframlag frá atvinnurekanda þínum og er þannig ein hagkvæmasta leiðin til sparnaðar. Undanfarin ár hefur verið heimilt að nýta séreignarsparnaðinn skattfrjálst inn á húsnæðislán viðkomandi. Til að nýta sér slíkt þarf að virkja það úrræði inn á www.leidretting.is, eins hefur verið heimilt að nýta séreignarsparnað sem innborgun inn á fyrstu íbúðarkaup. Þetta er eitthvað sem við mælum með að allir hugi vel að þegar kemur að fjármálum hvers og eins. Ávöxtun séreignar hefur sömuleiðis verið góð undanfarin ár.
Tilgreind séreign er úrræði sem kom inn fyrir nokkrum árum þegar greiðslur í lífeyrissjóði voru auknar á nokkrum árum um 3,5% úr 12% í 15,5%. Nú geta sjóðfélagar valið um að greiða áfram í samtryggingardeild sjóðsins eða nýta þessa umfram viðbóta 3,5% í tilgreinda séreign. Sjóðfélagar þurfa ekkert að aðhafast kjósi þeir að greiða áfram í samtryggingu 15,5%, kjósi þeir tilgreindu séreignina þurfa þeir að gera sérstakan samning þess efnis sem er aðgengilegur á vefnum okkar.
Rétt þykir að benda á að sjóðurinn tekur ekki þóknun af inngreiðslum í séreign eða tilgreindri séreign en töluverð umræða hefur verið um erlenda vörsluaðila og þá þóknun sem þeir taka.
Haukur Jónsson er framkvæmdastjóri sjóðsins, Laufey Konný er þaulreynd á sínu sviði og hefur starfað sem iðgjaldafulltrúi til áratuga. Aníta Óðinsdóttir starfar sem sérfræðingur sjóðsins og Trausti Hjaltason tók nýverið við starfi áhættustjóra af Thelmu Hrund Kristjánsdóttur. Þess má geta að Þórsteina Sigurbjörnsdóttir fulltrúi Virk starfsendurhæfingar er einnig með aðstöðu á skrifstofu sjóðsins. Við hvetjum sjóðfélaga til að kynna sér réttindi sín inn á sjóðfélagavefnum okkar www.lsv.is, þar geta sjóðfélagar séð á einfaldan máta öll réttindi sín hjá sjóðnum og unnið með reiknivél sem áætlar greiðslur þegar að því kemur. Ef eitthvað er óljóst má alltaf hafa samband við skrifstofu sjóðsins eða koma í heimsókn til að fá frekari upplýsingar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst