Ef einhver hátíð á landinu kemst nálægt því að standa jafnfætis Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er það Fiskidagurinn mikli á Dalvík sem nú fer hafinn. Allt á þeirra forsendum og engu stolið. Og auðvitað eiga Eyjamenn verðuga fulltrúa á Dalvík eins og kemur fram á heimasíðu Fiskidagsins sem Atli Rúnar Halldórsson stýrir.
„Já, já. Eyjamennirnir mæta og eru reyndar þegar mættir. Þegar Vestmannaeyjar ber á góma á Dalvík í Fiskidagsvikunni kemur jafnan tvennt upp í hugann: Kemur Geir Jón Þórisson? Kemur Grímur kokkur með allt sitt harkalið og góðmeti?
Staðfest er af Fésbók og æðri máttarvöldum að Geir Jón er mættur og tók Fiskidagsgleði sína um leið og hann ók yfir Hámundarstaðaháls og Dalvíkin blasti við.
Í vinnslusal við höfnina hamast Grímur kokkur og aðstoðarlið hans við að undirbúa morgundaginn. Það dugar ekkert annað en ker frá Sæplasti til að laga sósur með fiskinum. Allt er svo stórt í sniðum í stærstu matarveislu Íslandssögunnar.
Meistarakokkurinn spilar sósuuppskriftir eftir eyranu og fer létt með það. Þetta er sjálflært enda ekki í kennt í virðulegum kokkaskóla að búa til sósur á fisk í virðulegum, dalvískum Sæplastsílátum.
Að öðru leyti er mikill erill á hafnarsvæðinu enda allt að gerast – akkúrat NÚNA,“ segir í greininni og fylgir fjöldi mynda með.
Mynd: Hjónin Ásta María Ástvaldsdóttir og Grímur Þór Gíslason, eigendur Gríms kokks ehf. í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst