Húsið Suðurgarður í Ofanleiti er rúmlega aldar gamalt, byggt árið 1922. Nú standa yfir endurbætur á húsinu og fengu nýir eigendur – þau Ólafur Árnason og Guðrún Möller – Gunnlaug Helgason, húsasmið með sér í lið til að gera upp húsið.
Gunnlaugur sem er umsjónarmaður þáttarins vinsæla “Gulli byggir” segir í samtali við Eyjar.net að til standi rusla nánast öllu út úr húsinu fyrir uppbygginguna.
Í leit að verkefni í Eyjum
„Það má segja að ég sé svona fluga á vegg í þessum framkvæmdum.“ segir Gulli og bætir við að G&G smiðir séu einnig með verkið fyrir þau hjón. „Ég fylgist vel með framkvæmdunum, en ákveðið var að hreinsa allt út úr húsinu, þar sem mest allt var upprunalegt í húsinu. Í svona verkum þýðir ekki að fara hálfa leið.“
Aðspurður segir Gulli að hann hafi verið búinn að vera í leit að verkefni í Eyjum – og núna datt það inn. „Ég er að upplifa Eyjar í fyrsta sinn í snjó og kulda og finnst það frábært.“
Er hann er spurður um áætluð verklok segir hann að Óli sé harður á að þessu verði lokið fyrir Þjóðhátíð. „Mér varð að orði við Óla fyrir hvaða Þjóðhátíð hann væri að miða?“ segir hann og skellir upp úr.
Hvenær áttu von á að sýna þáttinn frá Eyjum á Stöð 2?
Þetta verður væntanlega sýnt árið 2025. Ég er að vinna þættina rúmlega ár fram í tímann, og er það af fenginni reynslu, sem það er gert.
Næst tekur við ferð hjá Gulla til Frakklands þar sem verið er að gera upp kastala.
Í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi
Húsið Suðurgarður er í byggðinni fyrir ofan hraun. Það var byggt af Jóni Guðmundssyni sem áður bjó í Svaðkoti. Suðurgarður stendur svo til á sama stað og Svaðkot stóð áður, örlítið vestar og útihúsin sem fylgja Suðurgarði eru á sama stað og þau voru þegar bærinn nefndist Svaðkot.
Búskapur hefur ekki verið stundaður í Suðurgarði frá því um og eftir miðja síðustu öld en síðast var þar hænsnabú. Útihúsin eru nýtt af tómstundabændum sem einnig nytja tún Suðurgarðs, að því er segir í umfjöllun á vefnum Heimaslóð.
Sama fjölskyldan hefur búið í Suðurgarði frá því að húsið var byggt. Fyrst bjuggu þar Jón í Suðurgarði og Ingibjörg kona hans og börn þeirra en þau hjón fluttu til Eyja úr Landeyjum rétt eftir aldamótin 1900. Síðan bjó þar dóttir þeirra Margrét Marta Jónsdóttir og eiginmaður hennar Árni J. Johnsen og svo tóku við búi í Suðurgarði dóttir Margrétar, Anna Svala Johnsen og eiginmaður hennar Ólafur Þórðarson rafvirki. Sonur þeirra Árni Óli Ólafsson og kona hans Hanna Birna Jóhannsdóttir keyptu húsið árið 1995. Ólafur Árnason sonur þeirra og eiginkona hans, Guðrún Möller eiga – eins og áður segir – húsið í dag.
Ljósmyndari Eyjar.net leit við í Suðurgarði í síðustu viku þar sem allt var á fullu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst