„Kæru útskriftarnemar, innilega til hamingju með daginn og þann árangur sem þið fagnið hér í dag. Þetta er ykkar dagur – tímamót í lífi hvers og eins. Þið hafið lagt hart að ykkur í námi, staðið ykkur vel og skilið eftir spor sem skólinn okkar er stoltur af. Á þessum tímamótum er við hæfi að horfa bæði til baka og fram á veginn. Hvað viljum við skilja eftir, og hvað viljum við taka með okkur og vinna áfram með?“ sagði Helga Kristín Kolbeins, skólameistari Framhaldsskólans á skólaslitum haustannar.
„Þessi spurning á við um ykkur sem einstaklinga, okkur sem skólasamfélag og samfélagið allt. Við trúum því að hægt sé að gera góðan skóla enn betri. Margt hefur breyst á þeim 45 árum sem skólinn hefur starfað, og samfélagsbreytingar verða sífellt hraðari. Við lifum á tímum þar sem tækni og þróun í menntun krefst stöðugrar aðlögunar. Aðferðir sem virkuðu vel fyrir 20 árum eru ekki lengur nægilegar til að hámarka árangur í dag. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hefur fylgst vel með þessari þróun og innleitt fjölbreyttar aðferðir til að styðja nemendur og undirbúa þá fyrir framtíðina.“
Helga Kristín sagði breytt námsumhverfi og tækni hafa breytt kennslunni og líka hvernig nemendur nálgast námið sem eru vanir tækninotkun í daglegu lífi og því er nauðsynlegt að nýta hana í kennslustofunni. „Aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið meira, og það hefur gert nám aðgengilegra og fjölbreyttara. Það er hluti af vegferð skólans að innleiða nútímalegar kennsluaðferðir.
Nýjar aðferðir, eins og verkefnabundið nám, hjálpa nemendum að þróa með sér gagnrýna hugsun, lausnaleit og hæfni til að vinna í hóp. Með aðstoð gervigreindar og gagnagreiningar verður hægt að sérsníða nám betur að þörfum hvers nemanda og stuðla þannig að árangri allra.“
Betri líðan og meiri svefn
Á þessari önn sagði Helga Kristín að skólinn hefði lagt sérstaka áherslu á þrjú mikilvæg atriði í skólastarfinu: námsáhuga, tjáningu og sjálfsmynd nemenda. „Þessir þættir eru lykillinn að því að skapa sterkt og heilbrigt námsumhverfi þar sem allir nemendur fá tækifæri til að vaxa og dafna.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hefur staðið fyrir breytingum sem hafa stuðlað að enn betri árangri. Til dæmis sjáum við nú að yfir 85% nemenda líður mjög vel í skólanum og nemendur hafa aldrei sofið betur síðan við hófum skólastarf seinna á morgnana. Þetta sýnir að litlar breytingar geta haft stór áhrif.
Með fjölbreyttum kennsluaðferðum höfum við gert námið áhugaverðara og meira viðeigandi, auk þess að efla tjáningu nemenda með opnum og skapandi leiðum. Við höfum einnig lagt rækt við að efla jákvæða sjálfsmynd þeirra með stuðningi kennara og jákvæðri endurgjöf. Við sjáum árangur en hann mælum við með könnunum með kennslumati og einnig tekur skólinn þátt í Skólapúlsinum sem er könnun sem lögð er fyrir á landsvísu. Við sjáum að námsárangur hefur sjaldan verið betri, yfir 80% nemenda eru áhugasamir um námið og hlutfallið er enn hærra þegar nemendur meta kennarana sína.“
Áhersla á sjálfbærni
FÍV leggur mikla áherslu á sjálfbærni. Skólinn er Unesco skóli og er að fullu kolefnishlutlaus og hefur innleitt öll fimm græn skrefin í ríkisrekstri. „Með Grænu bókahaldi höfum við fylgst með og mælt árangur okkar í umhverfismálum frá 2019. Þetta er ekki aðeins mælikvarði á umhverfisvitund skólans heldur líka á þau jákvæðu áhrif sem nemendur taka með sér út í samfélagið.
Við vitum að skóli framtíðarinnar rétt eins og atvinnulífið verður með öðru móti en við þekkjum í dag og við vitum að þrátt fyrir að við lifum á tímum hraðra breytinga, þar sem samfélagslegar kröfur, tækni og vinnumarkaður þróast hraðar en nokkru sinni fyrr er markmið skólans óbreytt. Markmið skólans er að veita menntun sem auðgar einstaklinginn, eflir samfélagið og undirbýr nemendur fyrir framtíðina,“ sagði Helga Kristín sem að lokum ávarpaði útskriftarnemana þrettán sem luku námi af ólíkum námsbrautum.
Hafið trú á sjálfum ykkur
„Við vitum að Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er góður skóli og við erum stolt af skólanum okkar. Brautskráning markar ævinlega tímamót, þar sem tvennir tímar mætast. Þannig er athöfnin hér í dag í senn lokaskref í átt að markmiði sem nemendur hafa sett sér – um leið og hún er fyrsta skrefið á vegferð sem mun leiða þá á vit nýrra tækifæra.
Fyrir hönd alls starfsfólks Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum sendi ég ykkur innilegar hamingjuóskir við þetta hátíðlega tilefni.
Við erum stolt af ykkur og því sem þið hafið afrekað. Þið hafið lagt hart að ykkur, sýnt þrautseigju og verið sjálfum ykkur og skólanum til sóma. Nú horfið þið fram á veginn, með þekkingu og reynslu í farteskinu, tilbúin að takast á við nýjar áskoranir og ótal tækifæri.
Þið hafið allt sem til þarf til að byggja ykkar eigin framtíð. Þekkingin, reynslan og gildin sem þið hafið öðlast hér munu fylgja ykkur hvert sem lífið ber ykkur. Hafið trú á sjálfum ykkur, setjið markið hátt, og munið að skólinn mun alltaf vera stoltur af ykkur. Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir dýrmæta samfylgd og samstarf. Megi gæfan fylgja ykkur hvert sem leiðin liggur,“ sagði Helga Kristín og endaði með að óska útskriftarnemum innilega til hamingju.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst