Fyrsti snjór vetrarins í Vestmannaeyjum féll um ellefuleytið í gær. Aðeins bætti í snjóinn í nótt en þó ekki meira en svo að engin vandamál fylgdu snjónum, þ.e. ökumenn virtust ekki vera í vandræðum með að keyra um bæinn. Það er hins vegar hætt við því að snjórinn stoppi stutt við í þessari fyrstu atrennu, yngstu bæjarbúunum til armæðu því samkvæmt veðurspá fer hitastig hækkandi þegar líður á daginn.