„Ef við byrjum á hreinsuninni þá var strax byrjað að hreinsa til að komast um bæinn. Milli 60 og 70 prósent af öskunni, vikrinum féll fyrstu dagana frá 25. til 29. janúar og síðustu hrinurnar komu um miðjan febrúar og venjulegir bílar komust ekkert áfram. Því varð að hreinsa aðalgöturnar og við vissum líka strax hvað átti að gera við vikurinn. Þannig var að um áramótin var samþykkt nýtt aðalskipulag að Vestmannaeyjum sem gerði ráð fyrir því að byggðin yrði í vestur. Það vantaði bara uppáskrift frá skipulagsstjórn en bæjarstjórn var búin að afgreiða skipulagið frá sér
Byggja átti þrjár blokkir á vegum verkamannabústaða þar sem Hraunbúðir eru og þegar verið var að undirbúa byggingu þeirra um áramótin 1972 og 1973 sáum við fram á að vinnan og kostnaðurinn við að fylla upp í hraunið yrði alveg óhugnanlegur. Þetta vorum við með í huga þegar við sáum allan þennan vikur. Hann væri alveg gósen sem fyllingarefni til að fylla upp í hraunið,“ segir Páll Zóphóníasson, tæknifræðingur. bæjartæknifræðingur í gosinu 1973, forstöðumaður Viðlagasjóðs og síðar bæjarstjóri þegar hann var spurður um upphaf hreinsunar bæjarins og hvenær ákvörðun var uppbyggingu var tekin.
Ákvörðunin um hreinsun var bæjarstjórnar og á fundi hennar þann 6. febrúar samþykkir hún að hefja skuli hreinsun í kaupstaðnum og byrja skuli á hafnarsvæðinu. Áhersla skuli lögð á að fylla upp í vegstæði vestur í hrauni og skipulögð vegstæði þar. „Aðalskipulaginu var aðeins breytt og sett inn fleiri einbýlishús og farið að vinna í því í mars og apríl 1973. Það er klárt þegar byrjað er að hreinsa af alvöru í maí og keyra vestur úr. Við settum út götunar, ég þær fyrstu en svo komu Viðar Aðalsteinsson og fleiri að því verki,“ segir Páll.
Þetta viðtal við Pál Zóphóníassonar, sem er mun lengra er meðal fjölda athyglisverðra greina og viðtala í blaði Eyjafrétta sem kemur út í vikunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst