Fyrir þremur árum týndist hátækni hljóðnemi við Hellisey sem tekur upp hljóð í hafi. Var þetta nokkur skaði því nýr kostar hljóðnemi um tvær milljónir með öllum búnaði. Stundum gerist það óvænta og það á við um hljóðnemann sem nánast upp á dag, þremur árum seinna, fannst í Kaplagjótu þar sem sjálfboðaliðar unnu að hreinsun á ströndinni.
Háskóli Íslands, sem er með aðsetur í Þekkingarsetrinu, rannsakar hvali í kringum Vestmannaeyjar. Hljóðneminn hafði verið notaður til að nema hvalahljóð, og hafði honum verið sökkt á um 50 metra dýpi við Hellisey. Hann hætti hins vegar að gefa frá sér merki þann 17. júní 2019. Mikið var rætt að fara í björgunaraðgerðir til að reyna að endurheimta hljóðnemann, en af því varð ekki.
Vignir Skæringsson var ásamt fleiri sjálfboðaliðum að hreinsa rusl vestur á Hamri, sendir myndir af honum til Filippu hjá Háskólanum. „Við þekktum hljóðnemann strax því engir nota þetta hér við land nema við og fólkið hjá Sea Life,“ sagði Filippa.
„Við sökkvum þeim við Hellisey á það miklu dýpi að við getum ekki kafað niður að þeim. Neðan í tækinu er lóð sem skrúfað er við hljóðnemann. „Við erum með búnað sem nær sambandi við búnaðinn og losar skrúfuna þegar við gefum merki. Þá flýtur búnaðurinn upp og við getum náð í gögnin,“ segir Filippa en þau vita ekki hvað gerðist.
„Stundum tæmast rafhlöðurnar en líklegast er að búnaðurinn hafi færst til í vondu veðri en við náum ekki sambandi við tækið í meira en kílómeters fjarlægð. Nú er hann kominn í leitirnar sem mjög gleðilegt,“ sagði Filippa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst