Fyrsti þáttur spennuþáttaraðarinnar Heimaey er kominn inn í veituna hjá Sjónvarpi Símans. Í gærkvöldi fór fram sérstök forsýning í Vestmannaeyjum, þar sem gestir fengu að sjá fyrsta þáttinn. Óhætt er að segja að þáttaröðin lofi góðu.
Leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarson lýsir því að dvölin og tökurnar í Eyjum hafi haft mikil áhrif á útlit og andrúmsloft þáttanna:
„Vestmannaeyingar tóku okkur ótrúlega vel og samfélagið þar er einstakt. Þetta litla og fallega þorp hentaði fullkomlega sem sögusvið – hrátt, einlægt og með fullt af orku sem er svo andstæð líflegu og suðrænu stemningunni í Lissabon þar sem hinn hluti sögunnar gerist. Mér fannst heillandi að láta þessar tvær ólíku veraldir mætast.“
Hann bætir við að upptökur á Stórhöfða hafi verið eftirminnilegar – á fleiri en einn hátt:
„Ég held þó að það verði langt þangað til ég eyði aftur mörgum dögum á Stórhöfða við kvikmyndatökur. Það er einn fallegasti staður landsins en veðrið þar getur verið alveg hræðilegt. Heimamaður sagði mér að þetta væri topp 3 vindasamasti staður á jörðinni. Ég trúi því.“
Heimaey (áður Friðarhöfn) er íslensk/portúgölsk samframleiðsla og gerist bæði í Vestmannaeyjum og Lissabon. Serían er á þremur tungumálum – íslensku, ensku og portúgölsku.
„Það var helsta áskorunin fyrir mig að leikstýra á portúgölsku því að ég kunni bara að segja hæ og takk,“ segir Arnór Pálmi.
„En portúgölsku leikararnir voru svo yndisleg í samstarfi og þetta gekk eins og í sögu. Núna kann ég nokkur orð í viðbót.“
Glassriver er íslenskur framleiðandi þáttanna. Arnór Pálmi Arnarson leikstýrir og handritshöfundar eru Sveinbjörn I. Baldvinsson, Elías Helgi Kofed-Hansen, Joana Andrade og Filipa Poppe.
Með helstu hlutverk fara Kristín Þóra Haraldsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Catarina Rebelo, Viktor Benóný Benediktsson, María Jaoa Bastos, Ivo Canelas, Cleia Almeida, Örn Gauti Jóhannsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Maruo Hermínio, Joao Villias-Boas, Rui Morisson, Styrmir Steinn Gestsson, Andre Vonport og Arnfinnur Þór Jónsson.
Í þættinum finnst portúgalski innflytjandinn María Santos myrt og samfélagið í Vestmannaeyjum riðlast. Soffía, lögreglukona úr Reykjavík og ættuð frá Eyjum, tekur málið að sér. Fljótlega áttar hún sig á því að málið kemur henni mun nær en hún bjóst við: sonur hennar, Hákon, á nánari tengsl við Belu, dóttur Maríu, en Soffía hefði kosið – og gæti hafa komið meira við sögu en hún þorir að trúa.
Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta var á forsýningunni og tók myndir. Þær má sjá hér að neðan ásamt stiklu úr þáttunum, sem gefur góða vísbendingu um þá spennu sem framundan er.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst