Það vekur athygli þegar Vestmannaeyjablöðin eru lesin að þar eru íbúar Eyjanna oftast nefndir og skrifaðir „Vestmann-a-eyingar“, gagnstætt málfræði- og stafsetningarreglum og enn fremur eðlilegum framburði. Enginn segir *Vestmann-a-eyingur í eðlilegu tali, heldur „Vestmann-eyingur“.
Hér er að verki sú regla í íslensku máli að viðskeytið „-ingur“ tekur oftast aðeins tvö atkvæði á undan sér og styttir orðstofninn sem því er skeytt við ef hann er of langur. Þannig segja allir „Breiðfirðingur“, en enginn *Breiðafirðingur, því síður *Breiðafjarðaringur; allir segja „Reykvíkingur“, en ekki *Reykjavíkingur, „Norðlendingur“, enginn *Norðurlendingur o.s.frv. Stundum falla niður heilir orðhlutar í stofni til þess að krafa reglunnar sé uppfyllt: Enginn segir t.d. *Súgandafirðingur, heldur „Súgfirðingur“, enginn *Önundafirðingur, heldur Önfirðingur, enginn *Bolungarvíkingur, heldur „Bolvíkingur“, enginn *Snæfellsnesingur, heldur „Snæfellingur“, enginn *Rangárvellingur, allir „Rangvellingur“ o.s.frv.
Við þessa reglu bætast svo ýmsar málfræðilegar flækjur, hljóðvörp o.fl., sem ástæðulaust er fara nánar út í hér, og frá reglunni eru undantekningar að því leyti að atkvæðin á undan „-ingur“ geta verið fleiri en tvö eins og er einmitt í „Vestmanneyingur“, sbr. líka „Nýsjálendingur“. Málvenja veitir ávallt góða leiðsögn um slíkt. Aðalatriðið er að um orð eins og „Vestmanneyingur“ fara saman málfræðireglur og eðlilegur framburður.
Rithátturinn „Vestmann+a+eyingur“ er hins vegar gamall og nú orðið miklu algengari en „Vestmanneyingur“, og meira að segja kominn í orðabækur. Ég held að þessi ritháttur stafi af misskilinni ofvöndun í stafsetningu, og menn átti sig ekki á reglunni sem að baki býr og styðjist þá við bæjarnafnið Vestmannaeyjar.
Fleiri viðskeyti í íslensku valda áþekkum breytingum í orðstofni til styttingar, t.d. „-sk“. Þannig er sagt í eðlilegum framburði: „vestmanneyskar stelpur“, en ekki: *vestmann+a+eyskar stelpur.
Um viðskeyti í íslensku, m.a. „-ingur“, „-sk“ o.fl., eru til lærðar ritgerðir. Að starfsetningu orða með þessum viðskeytum (-ingur og -sk) er sums staðar vikið í kennslubókum og blaðapistlum. Þrátt fyrir það er orðmyndin „Vestmann+a+eyingur“ býsna algeng og lífseig.
En eiga ekki umfram allt og alla Vestmanneyingar að hafa þetta á hreinu!
Helgi Bernódusson.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst