Hinn ágæti formaður ÍBV Íþróttafélags, Hörður Orri Grettisson, vandar um við okkur í bæjarstjórn Vestmannaeyja vegna ákvörðunar um að leggja ekki hitalagnir undir væntanlegt gervigras á Hásteinsvelli. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt – en okkur þykir verra þegar formaðurinn gefur í skyn að við höfum tekið þessa ákvörðun út í loftið og án þess að kynna okkur málin. Svo er ekki – þessi ákvörðun er tekin að yfirveguðu og yfirlögðu ráði með allar fáanlegar upplýsingar fyrirliggjandi.
Rétt er að taka fram strax, að okkur er öllum ljóst að það er betra að hafa hitunarbúnað undir gervigrasinu en að hafa hann ekki. Það er hins vegar okkar mat að ávinningurinn af slíkum búnaði hér í Eyjum sé ekki nógu mikill til að réttlæta kostnaðinn; hvorki við uppsetningu né rekstur. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að heildarkostnaður við að koma gervigrasi á Hásteinsvöll – án hitalagna en með vökvunarkerfi og flóðljósum – er áætlaður 280-300 milljónir króna. Hitunarkerfi tilbúið til notkunar myndi kosta um 85 milljónir króna til viðbótar (265 milljónir ef keypt yrði varmadæla í stað þess að tengjast fjarvarmaveitu), auk hitunarkostnaðar í framtíðinni. Og hver yrði ávinningurinn?
Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði er meðalhitinn í Vestmannaeyjum í fjórum köldustu mánuðunum, des/mars, +1 gráða (sá sami í öllum mánuðunum hverjum fyrir sig). Það er sem sagt aldrei frost að meðaltali í neinum mánuði í Eyjum, þótt auðvitað geti komið mislangir frostakaflar. Í sömu mánuðum er t.d. tæplega 5 gráðu frost að meðaltali á Ísafirði. Ólíku saman að jafna. Reykjavík er einhversstaðar þarna á milli. KSÍ gerir ráð fyrir að brottfall á nýtingu gervigrasvalla í Reykjavík vegna veðuraðstæðna, ekki bara frosti, sé 20-40 dagar á vetri.
Þá er stóra spurningin: hvað munu margir dagar á vetri falla brott í nýtingu Hásteinsvallar sem hitalagnirnar myndu bjarga, þ.e.a.s. þegar bara frost hamlar notkun en ekki jafnframt snjór eða vindur? Yrðu dagarnir 10 eða 20? Auðvitað mismunandi eftir árum en að okkar mati allavega ekki nógu margir til að réttlæta viðbótarkostnað upp á 85 (eða 265) milljónir króna í framkvæmdakostnað, auk ca. 500.000 króna fyrir hvern dag sem hitunarkerfið yrði notað. Rétt að taka það hér fram, af því að formaður ÍBV nefnir tölur frá Víkingi í Reykjavík til samanburðar, að allar magntölur í umræddu minnisblaði byggja á útreikningum VSÓ verkfræðistofu, sem líklega hefur mesta reynslu á Íslandi af hönnun og uppbyggingu gervigrasvalla. Hér má svo árétta að ÍBV hefur við hliðina á Hásteinsvelli til fullra umráða knatthús sem er til reiðu þá daga sem falla brott í nýtingu vallarins. Það eru ekki mörg félög á Íslandi sem búa við slíka aðstöðu.
Í hinu stóra samhengi má benda á að þegar framkvæmdum lýkur við gervigrasvöllinn hefur Vestmannaeyjabær á um 5 ára tímabili varið 500 milljónum króna í nýframkvæmdir til að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á Hásteinsvelli. Fyrir utan annan stuðning við ÍBV. Það eru að meðaltali um 100 milljónir á ári sem ber að skoða í samhengi við að heildar fjárfestingargeta Vestmannaeyjabæjar án lántöku er um 1000 milljónir á ári. Þessar framkvæmdir við Hásteinsvöll fara nálægt því að nema um 10% af heildar fjárfestingargetu bæjarins.
Að öllu samanlögðu er það niðurstaða bæjaryfirvalda að hitunarkerfi undir Hásteinsvöll væri einfaldlega of dýrt miðað við þann ávinning sem það skilar, hvort sem litið er til stofnkostnaðar eða reksturs. Það væri óskandi að forráðamenn ÍBV sýndu þessari niðurstöðu skilning því okkur býður í grun að þeir kæmust að sömu niðurstöðu væru þeir að höndla með eigin fjármuni – eða fjármuni sem bæjarbúar hefðu trúað þeim fyrir.
Við hvetjum þá bæjarbúa sem áhuga hafa að kynna sér þetta minnisblað sem m.a. liggur til grundvallar ákvörðun bæjaryfirvalda.
Eyþór Harðarson, oddviti D-listans
Njáll Ragnarsson, oddviti E-listans
Páll Magnússon, oddviti H-listans
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst