Þann 28. apríl nk. verður haldin tónlistarhátíðin Hljómey í Vestmannaeyjum. Hátíðin fer fram á 11 heimilum víðs vegar um miðbæ Vestmannaeyja og 14 atriði koma fram. Þau eru Júníus Meyvant, Magnús Þór Sigmundsson, Una Torfa, Emmsjé Gauti, Valdimar Guðmundsson, Foreign Monkeys, ELÓ, Molda, Karlakór Vestmannaeyja, Merkúr og Helga & Arnór, Tríó Þóris, Hrossasauðir og Blítt og Létt.
Verkefnið sjálft er óhagnaðardrifið samfélagsverkefni sem unnið er í samvinnu við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæ, Herjólf, The Brothers Brewery, Hótel Vestmannaeyjar, Höllina og Westman Islands Inn. Tilgangurinn er að búa til skemmtilegan og einlægan viðburð í lok vetrar, til að efla ferðamannatímabilið í Vestmannaeyjum og um leið efla tónlistarlíf og tónlistarmenningu Vestmanneyinga.
Keflvíkingur með Eyjarætur
Svona framtak verður ekki til af sjálfu sér en það er hann Guðmundur Jóhann Árnason sem er forsprakki þessa verkefnis í Vestmannaeyjum. Hann fékk Birgi Níelsen í lið með sér og saman hafa þeir kumpánar staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði. Birgi þarf ekki að kynna fyrir Eyjamönnum en mér fannst Gummi eins hann er kallaður þarfnast frekari kynningar við. Því settist ég niður með honum á Haukabergi og ræddi við hann um þetta skemmtilega uppátæki og því lá beinast við að spyrja hver er maðurinn? „Ég er uppalinn í Keflavík en móðurfólkið mitt er ættað úr Eyjum. Foreldrar mínir eru Árni Björgvinsson og Friðbjörg Helgadóttir. Foreldrar hennar eru Helgi Unnar Egilsson og Guðríður Steinþóra Magnúsdóttir sem bjuggu á Fjólugötu 7 fyrir gos. Annars hefur reynst mér best að kynna mig í Vestmannaeyjum sem besta tengdason Sibba Nínon.“ En Gummi er kvæntur Sædísi Sigurbjörnsdóttur og eiga þau tvö börn.
Byrjaði sem brandari
Aðspurður um það hvað hafi dregið þau til Eyja sagði hann það hafa byrjað sem hálfgerðan brandara. „Við eigum mikið af vinafólki í Eyjum og vorum að koma reglulega til Vestmannaeyja og ég hef alltaf kunnað vel við mig hérna og orkuna á staðnum. Við höfðum oft rætt það í hálfkæringi að flytja til Eyja. Ég sá síðan að Ísfélagið auglýsti starf hérna sem ég sótti um meira í gamni en alvöru. Það endaði svo með því að mér var boðið starfið og við ákváðum að stökkva til að prófa þetta og sjáum ekki eftir því enda samfélagið frábært og Ísfélagið frábær vinnustaður.“
Nánar í síðasta blaði Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst