„Hvítu tjöldin“
Hústjöldin í Dalnum eiga sér langa sögu.
Kristinn Pálsson

Eyjamenn flytjast nær oftast búferlum yfir Þjóðhátíð þegar tjaldborg rís í Herjólfsdal fyrir þrjá daga á ári. Tjöldin eru nú nýlega flest öll aftur komin í geymslu eftir vel heppnaða hátíð, þó einhver tjaldanna hafi ákveðið að halda gleðinni áfram og skemmta sér aukalega á Menningarnótt í Reykjavík. Þannig er í dagskrá hátíðarinnar auglýst „hvítt tjald“ í ráðhúsi Borgarinnar í tilefni 50 ára eldgoss á Heimaey.

„Ætlar þú að vera með hvítt tjald í ár?“, sagði enginn alvöru eyjamaður við annan eyjamann. Eyjamenn tala almennt sín á milli ekki um „hvítu tjöldin“ enda eru þetta í hugum okkar bara tjöld. Sá sem spyr að slíku getur varla hafa ímyndað sér þann möguleika að vestmannaeysk fjölskylda ætlaði sér til að mynda að vera í appelsínugulu Tal-tjaldi um hátíðina. Hefðin meðal heimafólks er auðvitað sú að sett séu upp „hústjöld“ í Dalnum.

Þó málvenja þessi og uppnefni „hvítu tjaldanna“ sé nú að finna í hátíðardagskrá afmælis borgarbúa er það ekki síður farið að festa sig í sessi meðal eyjamanna. Skammir eiga eflaust helst skilið reykvískir fréttamenn sem ekki hafa vitað betur og einblínt á lit tjaldanna í áraraðir í umfjöllunum sínum. Margir muna hugsanlegt landnám málvenjunnar sem kom með krökkunum er sóttu hátíðina heim og heimsótt tjöld heimamanna í von um ætan bita. Ástæða raunverulegrar nafngiftar hústjaldanna á sér þó eldri sögu og dýpri rætur í hátíðinni en gestkomin marglituð kúlutjöld sem síðar sáust í Herjólfsdal.

Hústjöldum hefur þannig verið tjaldað í meira en heila öld og tjöldun fylgt hátíðinni nær alla tíð. Það fyrsta er sagt hafa litið dagsins ljós árið 1908 og þeim farið ört fjölgandi upp úr því. Á fyrri hluta síðustu aldar mátti þó sjá tvær áberandi gerðir „hvítra tjalda“ í Dalnum. Það voru hin þá nýstárlegu hústjöld sem skáru sig þá frá eldri stagtjöldum en stagtjöldin voru sett upp með tveimur súlum en hliðarnar strekktar út með böndum og hælum svo mynda mætti burst. Til aðgreiningar fékk hin nýja formfastari útfærsla heitið „hústjald“ og hefur alla tíð borið það nafn með rentu. Hústjöld og stagtjöld voru jafnan aðgreind í Dalnum, hvor gerð með sínar götur.

Ljósmyndasafn Vestmannaeyja.

Mögulega tekst okkur ekki að uppræta uppnefnið með öllu og hugsanlega munum við með tímanum apa þetta eftir og afmá þannig upprunalegt heiti. Kannski er ég einn þeirra fáu minnar kynslóðar sem alinn er upp við rétt heiti tjaldanna og mun ég hér eftir sem áður angra fólk með leiðréttingum. Líkt og ekki munu hverfa úr orðaforða mínum; peyi, tuðra, smúla og hrossafiðrildi, þá mun ég sjá sóma minn í að halda í hefðina og bjóða vini mína velkomna í „hústjald“ okkar eða einfaldlega tjald fjölskyldunnar.

Tjöldin eru vissulega hvít, tjörnin oftast blá og dalurinn grænn. Útskýringin á litnum er í raun með öllu óþörf enda hefðu aðrir litir á tjaldi verði afkáraleg hugmynd, til að mynda hvað varðar birtu og upplifun. Mögulega er þetta tapað stríð og nýtt vörumerki hústjaldanna komið til að vera. Í raun ófrumleg tilraun til uppnefnis með eftirá skýringu um útlit þeirra. Kannski var ekki við miklu að búast í frumlegum nafngiftum aðkomufólks að sunnan, þegar heila nefnd sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu þurfti á sínum tíma til þess að nefna nýtt eldfjall; Eldfell.

En í tilefni gosafmælisins verður nú að finna hústjald um helgina í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem eyjamenn verða heiðursgestir.

 

Kristinn Pálsson
Höfundur er eyjamaður

Nýjustu fréttir

Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.