Ný þjónustumiðstöð við þjóðveg 1 mun bera nafnið „Laufey – Welcome center.“ Sveinn Waage, markaðstjóri Svarsins og umsjónamaður verkefnisins, sagðist hafa fallið strax fyrir nafninu. „Við unnum þetta með Aldeilis auglýsingastofu. Vorum með ákveðnar áherslur og hugmyndir sem skiluðu sér í þessu nafni sem við féllum strax fyrir. Það er lítið mál fyrir útlendinga að segja þetta og fyrir okkur að útskýra,“ sagðir Sveinn og bætti við. „Ef þú gúgglar Laufey (á ensku) færðu móðir Loka í goðafræðinni. Welcome Center er svo eitthvað sem við höfum unnið með lengur og passar sérlega vel við „Komdu fagnandi“ hjá okkur Eyjamönnum sem ættu alltaf að vera okkar skilaboð númer eitt, að mínu mati.“
Sveinn sagðist mjög spenntur fyrir verkefninu og vera, líkt og aðrir sem að verkefninu koma, tilbúinn að gera allt til að stöðin virki sem best. „Við viljum gera allt til að stöðin okkar virki sem best, að við lærum jafnóðum og bregðumst við. Þess vegna höfum við ákveðið að fara á verbúð, ég og Davíð Halldórsson rekstar-og tæknistjórinn. Davíð mun alfarið búa í Laufey og ég sjálfur meira eða minna fyrst um sinn a.m.k. Ég á reyndar eftir að segja konunni minni og börnum frá því. Það verður fjör,“ segir Sveinn og hlær
Opnum vonandi í haust
Aðspurður sagðist Sveinn vonast til að framkvæmdir hefðust sem fyrst. „ Byggingarleyfið er komið, landið er í okkar eigu. Við leggjum inn pantanir til okkar erlendu birgja um leið og fjármögnun er klár. Ef allt gengur upp náum við að opna í haust.“
Fyrsta bensínlausa bensínstöðin
Á þrívíddarteikningum af svæðinu má sjá eitthvað sem líkist bensínstöð en Sveinn sagði það þó ekki vera. „Laufey verður fyrst og fremst græn orkustöð. Við verðum í raun fyrsta stóra „bensínlausa bensínstöðin“ á landinu með tilheyrandi möguleikum á markaðssetningu og athygli. Ég heyrði í mörgum Eyjamönnum varðandi þessa hugmynd og bjóst alveg við misjöfnum viðbrögðum, en svo var ekki. Flestir sáu tengingu við rafdrifinn Herjólf og þetta væri einfaldlega framtíðin handan við hornið. Dísel-kallar, eins og ég, munum bara læra að taka olíu í Eyjum eða á Hvolsvelli þar til við förum yfir á rafmagnið. En svo það sé nú sagt, þá verður ekki eintómt vegan-fæði í Laufey þótt hún verði græn blessunin. Ef ég fengi að ráða myndi ég vilja fá djúpsteikingarolíuna úr Herjólfi fyrir frönskurnar,“ sagði Sveinn og glotti.
Alfarið í eigu Eyjamanna
Sveinn sagði að stefnuna vera að hafa þetta eins vestmannaeyskt og hugsast getur. Fyrirtækið sem rekur þjónustumiðstöðina verður skráð í Vestmannaeyjum og í meirihluta eigu Eyjamanna. Sveinn sagði fjármögnun ganga vel og reiknar með að hlutirnir skýrist betur á næstu vikum. „Okkar kjölfestu-fjárfestir er að klára sína vinnu sem gerir okkur kleift að halda áfram. Við erum búnir að heyra í okkar stærstu fyrirtækjum sem og hjá þeim finnum við góðan vilja til að mynda traustan eigendahóp í Eyjum. Allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að auka hlut okkar í heimsóknum ferðamanna á Suðurlandi og skapa fleiri störf í Eyjum,“ sagði Sveinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst