Það er fátt meira spennandi í lífi ungmenna en þegar rúnturinn er innan seilingar og bílprófið loksins í höfn. Bílprófið þykir eitt af þessum stóru tímamótum í lífinu og margir sem byrja á fullu að æfa sig við aksturinn þegar sextán ára aldrinum er náð og hefja má ökunám. Þá taka þeir prófið helst ekki seinna en á 17. ára afmælisdeginum sínum.
Eyjamaðurinn Snorri Þorgeir Rútsson hefur starfað sem ökukennari í Vestmannaeyjum í 23 ár en hann fór í Ökukennaraskólann árið 1999. Að auki hefur Snorri starfað sem íþrótta- og sundkennari í Eyjum og gerði það í ein 48 ár eftir að hafa lokið námi við Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni árið 1974. Þjálfaraferill Snorra hófst þegar hann var aðeins 14 ára og þjálfaði hann flesta flokka hjá Tý í bæði knattspyrnu og handbolta. Þá þjálfaði hann einnig meistaraflokk ÍBV í knattspyrnu á tímabilinu 1993 til 1994. Blaðamaður settist upp í bílinn hjá Snorra nú á dögum og tók stöðuna á honum á rúntinum.
Snorri í Íþróttakennaraskólanum árið 1973.
Ekki með bíladellu
Aðspurður hvað sé skemmtilegast við vinnuna nefnir Snorri fjölbreyttan hóp nemenda og segir starfið verulega gefandi. „Maður kynnist ótrúlega mörgum skemmtilegum og klárum krökkum. Sem dæmi þá spyr ég þau oft hvað þau ætli að læra eða verða í framtíðinni, en ég myndi helst vilja skrifa áhugamál nemanna niður hjá mér því það eru svo ótrúlega mörg starfssvið sem þau hafa áhuga á“ segir Snorri.
„Síðan heyrir maður hvort viðkomandi sé með bíladellu og þar eru ótrúlega margar stelpur með bíladellu en þó aðeins fleiri strákar. Það er náttúrulega staðreynd að krakkar með bíladellu eru fljótari að ná öllu, keyra betur og hugsa betur um bílana“ segir Snorri sem segist þó ekki vera með bíladellu sjálfur. Þá hafi hann þurft að viðurkenna í einhver skipti að þekkja ekki til sumra bílategunda þegar hann spyr nemendur sína hver þeirra draumabíll sé.
Þegar Snorri fór að huga að lokaverkefni sínu við Ökukennaraskólann pældi hann mikið í því hvað hann gæti gert til þess að hjálpa nemendum að festa umferðarmerkin í minnið ásamt því að hafa smá keppni og fjör. Einn daginn upp í sumarbústað á Flúðum í bullandi rigningu dettur honum í hug að gera spil og til varð umferðarspilið Hringvegurinn. Spilið gengur út á að ferðast umhverfis Ísland og að læra umferðarmerkin– og reglur um leið. Snorri fékk Námsgagnastofnun til að gefa út spilið og er það nú kennslugagn í fjölda grunnskóla.
Eyjamenn betri að keyra?
„Málið er að þegar ökuneminn er sestur undir stýrið þá ber ökukennari ábyrgð á öllu. Ef nemi keyrir aftan á bíl, staur eða hvað sem er þá ber ég ábyrgð á því. Ég hef verið ofboðslega heppinn að hafa aldrei lent í árekstri eða öðru slæmu á þeim 23 árum sem ég hef verið að kenna. Einn nemi sem var í prófi hjá Halldóri prófdómara lenti í árekstri, hann var hinsvegar í fullum rétti og náði prófinu. Ef Halldór hefði þurft að grípa inn í, t.d. negla niður niður til að bjarga, þá hefði neminn fallið“ segir Snorri. Þegar hann er spurður út í það hvort hann hafi nokkurn tímann óttast um líf sitt í ökutíma svaraði hann því neitandi.
Það er ekki sjálfgefið að ná prófinu sem reynist mörgum þungt enda þarf að kunna öll þau 365 umferðarmerki og sökkva sér í lestur um allar þær reglur sem fylgja því að vera ábyrgðarfullur einstaklingur í umferðinni. „Á landsvísu er 50% fall í bóklega prófinu. Prófið er strangt og er hægt að falla við það að mistakast á einni spurningu, en krakkarnir hérna í Eyjum eru það dugleg og flestir búnir að æfa sig mikið þannig að það er bara mjög góð útkoma hérna. Mikið lægra fallhlutfall.“
Bugðóttir vegir
En hefur prófið alltaf verið svona erfitt? „Nei, alls ekki. Þegar ég var að læra á bíl fékk ég blað með 25 spurningum, lærði þær spurningar utan að og málið var dautt. En talandi um erfitt, þá var farið með þessi próf til íslenskukennara við Háskóla Íslands og hann látinn meta hvort íslenskan í prófinu væri of þung eða ruglingsleg. Hann sagði bara nei, nei, allt væri eðlilegt og í rauninni frekar auðvelt varðandi prófin. En það er bara þannig að nemarnir skilja ekki sum orðanna í prófunum. Ég hef til dæmis verið með fullorðnu fólki í pottunum og spurt þau hvað bugðóttur vegur þýðir. Margir halda að það þýði vegur sem fer upp og niður brekku en nei, það er vegur með nokkrum beygjum.“
Það er ekki aðeins prófið sem hefur breyst í gegnum árin, umgjörðin í náminu tók miklum breytingum í byrjun sumars. Umgjörð almenns ökunáms og allir ferlar vegna námsins eru orðnir stafrænir og heyrir því pappír í ökukennslu að mestu sögunni til. Þá er líka orðið hægt að taka prófið á sjálfskiptan bíl í stað beinskiptans sem Snorra þykir vera ákveðinn galli.
Ráð til ökunema
„Ég mæli með að vera dugleg að æfa það sem farið er yfir í bílnum. Sjálfstraustið kemur með mikilli æfingu. Það tekur tvö til þrjú ár að vera þokkalega góður ökumaður og í því felst að aka sérstaklega gætilega fyrstu árin. Þegar nemarnir eru að klára og búnir að ná prófunum þá eru margir, sérstaklega peyjarnir, sem hugsa með sér að þeir séu algjörir snillingar eftir að hafa rúllað prófunum upp, en þá eru þessi ár eftir í sambandi við að fá reynslu.“
Greinina má einnig lesa í 17.tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst